Hagrætt í rekstri flugvalla

Margt bendir til að aðstaða flugmanna versni til muna m.v. tíðindi dagsins en Flugstoðir draga nú hressilega úr þjónustu við flugvelli víða um land.  Það verður þó að segjast að þetta snerti fisflugmenn lítið þar sem þjónustan er aðallega varðandi mokstur og hálkueyðingu sem og opnunartíma turna utan hefðbundins flugtíma í birtu auk þess sem vellir á norðausturhorni landsins munu þurfa að þola meiri skerðingu en aðrir.

 

Reglubundnu vetrarviðhaldi nokkurra flugvalla verður hætt 1. apríl. Þá verður opnunartíma nokkurra flugvalla breytt frá sama tíma. Aðgerðirnar eru liður í umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum sem Flugstoðir þurfa að grípa til.

Flugstoðir reka 53 flugvelli um allt land. Áætlunarflugvellirnir eru 14, flugbrautir með bundnu slitlagi eru 6 og 31 flugbraut er með malarslitlagi. Auk þess eru tvær flugbrautir með grasyfirborði.

Flugstoðir grípa til hagræðingaraðgerðanna til að uppfylla þjónustusamning sem er í gildi fyrir þetta ár. Bréf hafa verið send til sveitarstjórna þar sem þjónusta á flugvöllum verður skorin niður eða skert en aðgerðirnar ná til a.m.k. 12 flugvalla.

Reynt er að haga hlutum þannig að starfsemi áætlunarvalla skerðist ekki eða neyðar- og sjúkraflug. Þjónustutími verður styttur á einhverjum völlum, slökkt verður á aðflugshallaljósum á öðrum og flugupplýsingaþjónusta leggst tímabundið af á einhverjum stöðum. Þessar aðgerðir gilda til áramóta en verða þá endurskoðaðar.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is verður gripið til frekari aðgerða en ekki verður gripið til uppsagna starfsfólks.

Meðal flugvalla sem eru á skerðingarlista Flugstoða eru flugvellirnir á Húsavík og Raufarhöfn. Bundið slitlag er á vellinum á Húsavík en malaryfirborð á Raufarhöfn.

Mokstri og hálkueyðingu á flugvellinum á Húsavík verður hætt og flugupplýsingaþjónusta verður ekki fyrir hendi. Þar með verður flugvöllurinn ónothæfur, a.m.k. fram á vor og sjúkraflug og leiguflug leggst af.

Á vef stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum segir að full ástæða sé til að heimamenn taki þessum fréttum alvarlega.

„Ekki síst þar sem flugvöllurinn gegnir mikilvægu hlutverki varðandi sjúkraflug og þá hafa menn horft til þess að auka flugumferð um völlinn með leiguflugi og föstum áætlunarferðum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Nú er full ástæða til að standa upp og mótmæla og krefjast þess að samgöngumálayfirvöld afturkalli tillögur um lokun flugvallarins,“ segir á vef stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

Tekið af vef mbl.is