Ferðasaga: Ég myndi líklega tapa höfðinu á mér …

fhholmavik1

fhholmavik1Vefnefnd óskar eftir skemmtilegum ferðasögum, myndum og myndböndum til að prýða vefinn.  Undirritaður vefnefndarlimur ákvað að ríða á vaðið með ferðasögu frá því í fyrra þegar ég flaug ásamt 4 drekum vestur á Hólmavík.  Læt hana fylgja:

Jæja, þá er glæsilegri flughelgi að ljúka. Ég byrjaði hana snemma á laugardagsmorgunn þegar ég sótti jeppann svo Eva gæti dregið “sumarbústaðinn” í Húsafell þar sem við ætluðum að eyða helginni. Þar sem þessi helgi var svo “mín helgi” stakk ég af austur á Selfoss til að setja nýhreinsaða loftsíuna á vélina aftur eftir “overhaul”. Ég pakkaði öllu dótinu saman fyrir flug, myndavél – checked, batterí í headset – checked, GPS trackerinn – checked, o.s.frv. Svo brunað austur og þegar í skýlið var komið hafði bansett loftsían náttúrulega orðið eftir! Hvar var ég aftur að smíða geimflaugar?! Jæja, eftir að hafa rifið síu úr óheppinni vél í skýlinu okkar og sett í 134 var mér ekki til setunnar boðið og henst í loftið og stefnan tekin á Reykjavík áður en haldið yrði vestur. Ég líka búinn að setja bensín á 30 lítra brúsa fyrir langflugið og allt reddí. Já… planið var að fljúga hópflug á Vestfirði þar sem meiningin hjá liðinu var að gista svo einhversstaðar á leiðinni og fljúga til baka á sunnudegi. Ég ætlaði reyndar bara að elta hópinn eitthvað áleiðis og snúa aftur í Húsafell til minnar heittelskuðu og barnanna því ég fæ eitthvað útúr því að sofna seint og vakna snemma 😐

Já, semsagt, út á braut og beint í loftið enda sól og blíða og baaaara gott flugveður. Tékklistinn var semsagt tekinn í loftinu þegar betur gafst tími til :). Ég var kominn í ágætis hæð yfir Kambabrún og rétt að tékka á þessu, bara byrja auðveldlega; Loftsía – checked… smá grín… mótorhiti – OK, hraði – OK, hæð – OK, radíó – OK… semsagt allt ok… já og bensín – OK! Og auðvitað voru varabensínbirgðirnar í farþegasætinu… eða hvað? Geimeðlisfræðingurinn ég var náttúrulega búinn að gleyma því á Selfossi og þetta dömur mínar og frúr er ástæðan fyrir að ég þarf að vera kvæntur, án þess að hjónaband mitt sé kvöð, nema þá kannski helst á Evu mína. Ég þarf beinlínis á konunni minni að halda eins og lífverur þurfa súrefni. Enda var það nánast eftir bókinni að þegar ég hringdi í hana og sagði henni að ég hefði gleymt árans ofangreindri loftsíunni þá sagði hún náttúrulega “Oh, ég ætlaði að minna þig á þetta… datt þetta í hug…” o.s.frv. Eva veit held ég ekkert hvað loftsía á flugvel er en samt tókst þessari völundarsmíð einhvern veginn að skynja það að ég myndi gleyma þessu “stykki” sem ég hafði dundað mér við að hreinsa í bílskúrnum daginn áður. Spurðu Evu hvaða afmælisdag einhver öldruð frænka hennar á og hún getur nefnt þér hann, líklega á hvaða vikudegi hann lendir og líklega þá tvo til þrjá aðila sem eiga afmælisdaga næst þessari manneskju. Magnað alveg hreint.

fhholmavik2Nema hvað… ég flaug “á hljóðið” og byrjaði að pikka mótordrekastrákana upp í Borgarfirðinum eftir að hafa þurft að lágfljúga allt Kjalarnesið, yfir Hvalfjörð og inn að Borgarnesi þar sem loksins leysti úr skýjahulunni. Við tók heiðskýr Norðurárdalurinn og ótrúlegt útsýni alla leið upp á Vestfirði í aðra áttina og yfir á Langjökul og nærliggjandi jökla og fjöll í hina. Þegar ég nálgaðist svo Hrútafjörðinn ofan af Holtavörðuheiði heyrði ég strákana vera að leita að lendingarstað og lenti svo með þeim á þjóðveginum við Brú, nokkrum vegavinnumönnum og olíubifreiðastjórum til mikillar undrunar. Pylsuétandi hnébuxnaklæddum túristum á Brú fannst mikið til koma og sögðu Ísland ótrúlega frjálslegt og að þetta yrði aldrei leyft í Chicago þaðan sem þau kæmu. Nei í alvöru?! Að bensínáfyllingu lokinni tók svo við áframhaldandi flug á Hólmavík með tilheyrandi lágflugi þar sem við upplifðum fegurð Hrútafjarðar og margbrotið fugla- og dýralíf. Ætli ég hafi ekki séð um 300 seli á tveimur skerjum og var það bara brot af þeim sem ekki voru þegar á sundi eða annarsstaðar. Því miður náði ég ekki neinum spes myndum af þessu akkúrat, en myndirnar úr ferðinni eru nokkrar ansi góðar engu að síður (sjá picasavefinn). Þegar á Hólmavík var komið var lent á flugvellinum þeirra og tekið smá pissustopp og nýr farfugl boðinn velkominn í hópinn en það var Elmar á TF-119, glæsilegum Kitfox sem hann keypti frá USA fyrir um 3 árum síðan. Ég kvaddi hópinn og hélt til baka í Húsafell þar sem Eva ætlaði svo að hitta mig.

fhholmavik3Á leiðinni heim setti ég vélina í um 4.000 fet og “trimmaði” (rétti hana af fyrir beint flug með stillingum, svona fyrir þá sem ekki nenna að setja sig inn í flugmálið) og fór svo bara að taka myndir, brjóta saman föt og pakka lausum hlutum í flugtöskuna enda ekkert betra að gera á svona langflugi. Þegar ég svo fór að nálgast Húsafell gat ég flögrað aðeins um þar sem Eva var ennþá ókomin og svo elti ég hana uppi á endanum og fylgdi í lágflugi síðustu 2-3 kílómetrana. Svo var lent og Eva rúllaði með fellihýsið að flugvellinum þar sem við tjölduðum skammt frá. Rosalega sniðugt fyrir svona dellukalla eins og mig en skelfileg staðsetning fyrir konu eins og Evu; flugvöllur, vegur, skógur og straumhörð á, svona eins og hinn fullkomni ógnunarpakki fyrir hana. Svo náttúrulega er fellihýsið án reyk- og gasskynjara. Gætum allt eins rúllað okkur fram af Hvannadalshnjúk í síldartunnu eins og að stunda þetta glæfraspil. Eva var reyndar ekkert að minnast á þetta. Held að hún hafi bara gert þetta fyrir mig, svona svo ég hefði vélina í augsýn innan um allar þessar íslensku lopapeysuklæddu “ginídónig”sötrandi fyllibyttur og brjálaða sykurfyllta og koffíndrukkna krakkagemlinga sem litu á vængstifur vélarinnar minnar sem klifurgrindur stuttu eftir að ég lenti. Já, ég hafði orð á því við Evu að ég hefði tékkað á hvort vélin væri nokkuð merkt “Ísbíll” og að á henni væri dinglandi bjalla því mér leið svona dálítið eins og landkönnuði í Afríku þegar ég lenti. Krakkaskari hlaupandi á móti mér og horfðu á mig eins og að ég hefði fundið upp flugið og smíðað þetta stórfurðulega apparat með dyggri hjálp aðstoðarmannsins míns Passepartout. Auðvitað þurfti einhver vitspíran kellingin að fokka þessú mómenti upp með því að segja mér hvað hún væri “dömuleg” og “sæt” (vélin mín) sem auðvitað dróg úr allri karlmennsku minni og fljótlega var allt komið í samt horf… krakkarnir búnir að missa áhugann og farnir að spila fótbolta, kasta steinum í stórfljótið, týnast í skóginum eða annað sem börn taka sér venjulega fyrir hendur.

Við Eva áttum svo ósköp notalega stund í fellihýsinu með krökkunum, grilluðum hamborgara, drukkum nokkra “Lite” og spjölluðum frameftir kvöldi. Um morguninn var nátturulega steikarhiti í fellihýsinu og Mumma tókst auðvitað að vakna fyrstur manna og uppgötvaði að hann þyrfti að pissa. Ég hleypti honum út úr prísundinni og hann stillti sér upp fyrir framan “nágrannana” þar sem þeir voru að háma í sig einhverja hollustumáltiðina (svona fullkomin fjölskylda sjáið þið til, óaðfinnanlegur Combi-Kamp vagn með hillusystemi, King Charles hundur í ól og þrjár nákvæmlega aldurslega jafndreifðar stífgreiddar og bleikklæddar systur við matarborðið – þetta er líklega mælikvarði á vísitölufjölskylduna). Já, út með hann og svo bara spræna! Ekkert dónalegt að mínu mati en svo fór hann aftur inn og spurði systur sína hvernig hún ætlaði að pissa. Hún átti náttúrulega til lausn á því og sagðis bara pissa í forláta pott sem fylgt hefur hýsinu lengi vel og er notaður undir að geyma tjaldhæla og dót svo það fari ekki á flakk um vagnin þegar við ferðumst. Já, sniðugt, hugsar hann. En hvað haldið þið? Eftir ca. 10 mínútur, við Eva nátturulega að rembast við að vakna helst ekki og teygja sæluna, heyrist í dreng: “Mamma! skeina mér… búinn að kúka!” Já, drengurinn er náttúrulega sjálfstæður og duglegur í alla staði og mamma spyr til baka: “Ha? Kúka?! Hvar?”. Svarið kom náttúrulega til þess að kæfa okkur úr hlátri: “Í pottinn!” Ég gróf höfuðið ofan í koddann og sá vísitölufjölskylduna fyrir framan okkur með skelfingarsvipinn en gat ekki stillt mig um hláturinn. Það þarf varla að taka það fram að þessi pottur er ekki lengur á meðal vor.

Svo mætti Þórir félagi á TF-170 ásamt Öddu sinni og við sátum í sólinni og spjölluðum þar til við tókum saman og hengdum í bílinn. Eva keyrði svo í bæinn og ég flaug með Þóri á Selfoss þar sem við rétt skriðum undir þokuna áður en hún lokaði flugvellinum alveg. Glæsileg flughelgi að baki og allir sáttir með ferðalagið hvort sem var í lofti eða á láði.  Heimleiðin frá Selfossi var náttúrulega klassísk fyrir þessa helgi, röð frá Skíðaskálanum í Hveradölum, bíll við bíl og 30 km. hraði. Eva slapp reyndar hinummegin frá enda allir búnir að vera á Landsmóti og þar í kring og því mun minni traffík að norðan en að sunnan.