ÍSLANDSMÓTIÐ Í SVIFVÆNGJAFLUGI 2009

ÍSLANDSMÓTIÐ Í SVIFVÆNGJAFLUGI 2009

fór fram í kyrrþey háloftanna helgina 8-9 ágúst í Fnjóskadal við Akureyri. Vel var mætt og fólki heitt í hamsi enda mikið puð að ganga svona mikið upp og niður fjöll tvo daga í röð. Veðrið var ægifagurt og hentaði vel til ýmissar útivistar annarrar en að fljúga á svifvæng.

Á laugardeginum setti mótsnefnd saman spennandi task sem hljóðaði uppá 20.8 kílómetra með 3 punktum og allir undirbjuggu sig í leyni við að taka á móti bikarnum við lendingu. Þegar veðrið var búið að sýna mótþróa í 5 tíma á öllum hugsanlegum take-offum í fjallinu varð ásátt um glide-keppni. 3 flugmenn yrðu þó að ná minnst 3 km. 3 reyndu en aðeins einn náði 3.1 km. Restin sýndi meistaratakta í lendingum við bílastæðið.

 

Sunnudagurinn varð ekki til meiri sælu. Rigning og bakvindur hrakti hópinn gangandi niður eftir að einn bjartsýnn flugmaður reyndi aftöku í mildum meðvindi og fékk flengingu fyrir.

 

Samfélag svifvængjaflugmanna og kvenna lét þó ekki flugleysið draga úr sér allan mátt og fékk útrás fyrir óbeislaða orkuna á stjörnubjörtum kvöldvökum sem entust fram undir morgun á tjaldsvæðinu í Vaglaskógi. Gömul flugviðurnefni voru rifjuð upp og ný fundin upp við mikla kæti flestra en þeirra uppnefndu. Kveiktur var varðeldur og dreginn fram gítar sem óvenju margir þóttust kunna að spila á en inn á milli leyndust snillingar. Þegar á leið morguninn voru einnig sýnd nokkur fimleika atriði sem fæstir muna þó eftir. Týndir tannburstar voru vinsælasta morgunumræðan.

 

Íslandsmótinu í Svifvængjaflugi 2009 verður seint lýst sem flughelgi ársins en þess í stað æsiskemmtilegri samkundu nýrra og notaðra flugmanna og maka þeirra. Verður hópurinn að teljast samhentari eftir samveruna fyrir norðan.

 

Takk fyrir mig.

 

Myndir:

http://www.flickr.com/photos/anitahaf/sets/72157621890865227/

 

Endilega setjið inn linka á myndaalbúm frá helginni hér í kommentakerfið.