Um Fisfélag Reykjavíkur

Félagið var stofnað árið 1978 undir nafninu Svifdrekafélag Reykjavíkur. Nafninu var breytt árið 2002 í samræmi við útvíkkun á starfsemi félagsins. Starfsemin var í upphafi aðeins bundin við flug á svifdrekum. Síðar fóru félagsmenn einnig að fljúga véldrekum sem eru “svifdrekar með mótor”. Í kringum árið 2000 hófst flug á svifvængjum (paragliders) hér á landi. Haldið var námskeið og einnig bættust í hópinn flugmenn sem höfðu kynnst svifvængjaflugi erlendis. Með nýrri reglugerð um vélknúin fis óx enn frekar fjölbreytnin í starfsemi félagsins.

Félagið er félag áhugamanna og flugmanna léttra flugfara sem eru svifdrekar, svifvængir og vélknúin fis. Félagið hefur starfað af miklum krafti frá upphafi, byggt upp félagsheimili, flugskýli, flugbrautir og gert allt til að efla “frjálst” flug hér á landi. Geymslupláss er fyrir svifdreka og svifvængi í félagsheimilinu. Auk þess hafa félagar möguleika á að geyma vélknúin fis í flugskýlum félagsins. Félagsheimilið stendur félagsmönnum opið allt árið um kring. Frá upphafi hefur félagið sett öryggið á oddinn. Því stendur félagið fyrir námskeiðum fyrir nýliða og lengra komna. Námskeiðin hefjast að jafnaði í byrjun sumars (maí eða júní). Kennt er á svifdreka, svifvængi auk bóklegra námskeiða fyrir vélknúin fis.

Flugdreki