Lög félagsins

Lög Fisfélags Reykjavíkur

1. Félagið heitir Fisfélag Reykjavíkur og heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Tilgangur og áherslur

2. Tilgangur félagsins er að styðja iðkun flugíþrótta á vélknúnum og vélarlausum léttum flugtækjum, svo sem svifvængjum, svifdrekum, paramótorum, drónum auk þess léttum útgáfum af flugvélum, þyrlum og gírókoptum.

Áherslur félagsins eru:

  • Að vinna að framgangi flugíþróttarinnar og standa vörð um íþróttina með því að stuðla að ábyrgri afstöðu til hennar meðal félagsmanna og annarra.
  • Að standa fyrir kennslu í flugi.
  • Að stuðla að stöðugri fræðslu fyrir flugmenn.
  • Að stuðla að öryggi flugmanna og nemenda.
  • Að bæta aðstöðu til flugíþrótta.
  • Að eiga og reka flugskýli fyrir tækjabúnað félagsmanna.
  • Að eiga og reka búnað til kennslu og útleigu fyrir félagsmenn.
  • Að eiga og reka aðstöðu fyrir félagsmenn þar með talið félagsheimili, flugvelli, flugtaksstaði og veðurstöðvar.
  • Að stuðla að fræðslu um flug meðal unglinga

3.Félagar geta orðið allir áhugamenn um flug. Umsækjendur yngri en 18 ára skulu leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða forráðamanna. Félagsaðild er fullgild um leið og félagsmaður hefur verið skráður í félagaskrá og félagsgjöld hafa verið greidd.

4. Heimilt er að kjósa heiðursfélaga, þá er unnið hafa markverð störf í þágu félagsins. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði þeirra sem mættir eru á aðalfundi. Heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld.

Aðalfundur

5.Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár hvert og skal til hans boðað skriflega, rafrænt eða auglýsingu í fjölmiðlum með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara.

6.Allar tillögur sem taka á til meðferðar á aðalfundi skal senda stjórn félagsins ekki síðar en þremur dögum fyrir aðalfund. Tillögur sem berast verða kynntar félagsmönnum með rafrænum hætti jafnóðum og þær berast.

7. Á birtri dagskrá aðalfundar skal nefna hverja tillögu sem hefur borist og mun hver þeirra tekin til meðferðar skv. dagskrá.

8.Tillögur sem ekki hafa borist tímanlega samkvæmt ofangreindu verða því ekki á dagskrá aðalfundar. Hægt er að bæta tillögum á dagskrá aðalfundar, ef samþykki 2/3 atkvæða á aðalfundi fæst. Við samþykki er viðkomandi tillaga sett á dagskrá, hún verður síðan tekin til meðferðar þegar að henni kemur í dagskránni.

9. Tilnefningar til stjórnarsetu má gera á aðalfundi, en félagsmenn sem gefa kost á sér til stjórnar geta gert stjórn viðvart með góðum fyrirvara og mun hún kynna nöfn þeirra með rafrænum hætti eigi síðar en sólarhring fyrir aðalfund.

10.Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

11. Formaður setur fundinn og lætur kjósa fundarstjóra í byrjun fundarins. Fundarstjóri úrskurðar í byrjun fundarins hvort fundurinn sé lögmætur samkvæmt 10. gr. Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara og sker úr öllum atriðum varðandi meðferð mála og atkvæðagreiðslur nema sérstök ástæða sé að vísa atriðinu til fundarins. 

12. Dagskrá aðalfundar skal vera samkvæmt eftirfarandi:

  1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra.
  2. Fundarstjóri gerir tillögu um ritara.
  3. Formaður flytur skýrslu stjórnar.
  4. Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins.
  5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
  6. Reikningar bornir upp til samþykktar.
  7. Gjaldkeri kynnir fjárhagsáætlun næsta árs.
  8. Ákvörðun um félagsgjald.
  9. Tillögur teknar til meðferðar.
  10. Kosning formanns, gjaldkera, ritara, tveggja meðstjórnenda og endurskoðanda.
  11. Kosning fulltrúa á þing FMÍ.
  12. Skipan nefnda.
  13. Önnur mál.

13.Atkvæðisrétt hafa allir skuldlausir félagar. Atkvæðisbær félagsmaður má veita öðrum atkvæðisbærum félagsmanni umboð til að fara með atkvæði sitt á aðalfundi. Hver einstaklingur getur mest haft umboð tveggja félagsmanna. Umboð skulu vera skrifleg eða send rafrænt til stjórnar. Fundarstjóri staðfestir gildi umboða. Umboð skal skrá í fundargerð. Umboð skal telja sem mætingu. Atkvæðagreiðslur skulu aðeins vera skriflegar ef fundurinn ákveður svo.

14. Á aðalfundi þarf einfaldan meirihluta til samþykktar mála. Til samþykktar breytinga á lögum þarf þó 2/3 hluta atkvæða þeirra sem mættir eru á fundinum. Allar meiri háttar ákvarðanir verða þó alltaf að hafa 2/3 hluta atkvæða á bak við sig (sjá grein 18). Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á fundi og skulu fundargerðir staðfestar af fundarstjóra og formanni.

Auka aðalfundur

15. Stjórn getur boðað til auka aðalfundar þegar hún telur þörf á vegna mikilvægra ákvarðana sem stjórn telur að ekki geta beðið næsta aðalfundar. Auk þess er stjórninni skylt að boða til auka aðalfundar um ákveðið málefni ef að minnsta kosti
helmingur félagsmanna óskar þess skriflega til stjórnar og skal fundurinn fara fram eigi síðar en þremur vikum eftir að beiðnin barst stjórninni. Til aukaaðalfundar skal boðað skriflega, með rafrænum hætti eða auglýsingu í fjölmiðlum með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal dagskrá fundarins koma fram. Ekki verða önnur mál á dagskrá aukaaðalfundar en sem kemur fram í fundarboði.

Stjórn

16.Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Aðalfundur kýs formann til eins árs í senn. Stjórnarmeðlimir sem ganga úr stjórn eru kjörgengir til endurkosningar.

17. Stjórnarfundur telst löglegur ef til hans er boðað skv. reglum sem stjórnin setur sér og minnst þrír stjórnarmenn eru mættir þar með taldir annað hvort formaður eða gjaldkeri. Einfaldur meirihluti sker úr málum en verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

18. Stjórn félagsins tilnefnir gjaldkera og fer hann með prókúru félagsins. Hann annast alla venjulega umsýslu með fé og eignir félagsins en allar meiri háttar eða óvenjulegar ráðstafanir eru háðar samþykki meirihluta stjórnar. Til sölu, veðsetningar eða annarrar ráðstöfunar á meiri háttar eignum eða réttindum félagsins þarf samþykki 2/3 hluta félagsmanna á aðalfundi.

19. Stjórnin skal skipa sér til aðstoðar og ráðuneytis þær nefndir sem þurfa þykir. Verksvið nefndanna skal nánar skilgreint í starfsreglum er stjórnin setur.

20. Stjórninni er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur félagsins eftir nánari reglum er aðalfundur setur þar um.

21. Reikningsárið er almanaksárið. Til að endurskoða bókhald félagsins skal á aðalfundi kjósa einn endurskoðanda til eins árs í senn. Ársreikningur skal fenginn endurskoðanda í hendur fyrir aðalfund og endurskoðandi skili niðurstöðum á aðalfundi.

22. Fjármuni félagsins skal eingöngu nota í þágu þess og stjórn ber að gæta þess að lausafjárstaða nægi til daglegs reksturs. Lausafé félagsins skal geymt á reikningum í eigu félagsins. Gjaldkera er heimilt að aðgreina fjármuni sem ætlaðir eru til sérstakra nota t.d. með því að hafa fleiri en einn reikning. Einungis er leyfilegt að ávaxta fjármuni félagsins á tryggðum innistæðureikningum. Stjórn er heimilt að taka við fyrirframgreiðslu aðstöðu og skýlisgjalda sem nýtt yrði í uppbyggingu skýla undir flugtæki félagsmanna.

Úrsögn og brottvikning

23. Þeir sem ekki hafa gert upp félagsgjald á eindaga strikast út af félagaskrá og njóta engra réttinda, beinna eða óbeinna, sem í félagsaðild kunna að vera fólgin. Greiðslur félagsmanns til félagsins ganga fyrst upp í eldri skuldir hans við félagið, síðan upp í félagsgjöld og loks til greiðslu annarra gjalda. Sá félagsmaður sem ekki hefur gert upp gjöld sín á eindaga glatar þeim réttindum sem greitt er fyrir nema reglur kveði á um annað.

24. Brjóti félagi lög eða reglur félagsins eða brjóti lög eða reglugerðir um flug, er stjórninni heimilt vísa viðkomandi félaga úr félaginu og/eða vísa broti til Samgöngustofu til úrvinnslu.

Félagsslit

25. Félaginu verður aðeins slitið á félagsfundi sem sérstaklega hefur verið boðaður í því skyni og verður a.m.k. helmingur atkvæðisbærra félagsmanna að vera mættir og ¾ hlutar hinna mættu fundarmanna samþykkir slitum þess. Verði félagsslit ákveðin skal Flugmálafélagi Íslands falin umsjá eigna þess þar til annað flugíþróttafélag yrði stofnað og ganga eignir þá til hins nýja félags.

Samþykkt á auka-aðalfundi 22. október 2018.