Svifvængjanámskeið

Námskeið í svifvængjaflugi eru haldin snemma sumars á hverju ári.
Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar um svifvængjaflug almennt.

Kennt er skv. alþjóðlegum kennslustaðli, Parapro og er miðað við að útskrifa nemendur á Parapro 2 stigi, eða því sem næst. Kennd eru undirstöðuatriði svifvængjaflugs, beiting vængsins og fræðileg atriði á borð við veðurfræði, flugreglur ofl.

Fisfélag Reykjavíkur hefur haldið byrjenda námskeið í svifvængjaflugi á hverju sumri frá árinu 2000. Félagið leggur áherslu á að byggja upp íþróttina um land allt og hefur haldið námskeið á Húsavík, Seyðisfirði og í Vík í Mýrdal, auk Reykjavíkur. Fyrstu umsjónarmenn námskeiðanna voru fengnir erlendis frá, en íslandsvinurinn og heimsmeistarinn Bruce Goldsmith hélt hér fyrsta námskeiðið árið 2000. Árið 2007 tóku félagsmenn Fisfélags Reykjavíkur  að annast kennsluna, en umsjónarmaður námskeiðsins og frumkvöðull kennslu svifvængjaflugs á Íslandi er Róbert Bragason, robert.bragason@gmail.com, sími 898 7771. Hægt er að senda honum póst og biðja um að fá senda áminningu þegar skráning á næstu námskeið er að hefjast.

Fyrirkomulag námskeiðsins verður sem hér segir:

Reykjavík:
Námskeiðið 2020 hefst 4. Maí á Hólmsheiði þar sem Fisfélagið er með góða aðstöðu. Veður og vindar ráða miklu um tímasetningar. Nemendur verða boðaðir í kennslu á kvöldin og um helgar eftir veðurútliti. Það er því ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvenær námskeiðinu lýkur. Gert er ráð fyrir 6-9 verklegum skiptum, og vegna veðurs getur námskeiðið tekið 4-5 vikur í heildina. Hér er Facebook viðburður námskeiðsins: https://www.facebook.com/events/168514047750377/

Vík í Mýrdal:
Námskeið er haldið í Vík í júní, ef næg þátttaka fæst. Kennt er í 5-10 daga samfleytt, hvenær sem er dags eða allan daginn eins og veður leyfir.

Námskeiðsgjaldið er kr. 135.000,- . Athygli er vakin á að flest stéttarfélög taka þátt í kostnaði félagsmanna sinna við námskeið sem þessi og getur styrkur numið allt að kr. 40.000,-  Innifalið í námskeiðsgjaldinu er allur búnaður á meðan námskeið stendur yfir og félagsgjald í Fisfélag Reykjavíkur.

Athugið að öryggi í svifvængjaflugi byggist á því að menn kunni réttu handtökin og ekki síður að meta aðstæður til flugs. Þátttaka í námskeiði á borð við þau sem Fisfélag Reykjavíkur býður á hverju ári er nauðsynleg forsenda þess að menn geti stundað þetta skemmtilega sport á öruggan og skynsamlegan hátt.

Nánari upplýsingar um námskeiðin.