ATIS – hvað er það?
ATIS er ensk skammstöfun fyrir fyrirbærið “Automatic Terminal Information Service” og myndi því útleggjast sem sjálfvirk flugvallaupplýsingaþjónusta. Eins og nafnið gefur til kynna er hér um að ræða upplýsingar þess flugvallar sem þjónustan á við, s.s. veður, færð, braut í notkun, aðflugsupplýsingar o.fl., jafnvel NOTAM tilkynningar. Hér er að finna stuttan pistil um hvernig ATIS er uppbyggt og hvernig ber að lesa úr ATIS skilaboðum.
ATIS upplýsingar eru gefnar út á stærri flugvöllum sem sjálfvirkur talstrengur sem er svo endurtekinn aftur og aftur, allan sólarhringinn. Hægt er að nálgast þessar upplýsingar í talstöð og/eða síma. Þær upplýsingar sem þar er að finna eru þær upplýsingar sem flugturn getur annars gefið upp, en er hugsaður til að minnka álag á flugumferðarstjóra.
Hver strengur byrjar og endar á bókstafsgildi, s.s. ALPHA, BRAVO, CHARLIE, o.s.frv. Þetta merki gefur til kynna einskonar útgáfu upplýsinganna. Sé upplýsingastreng breytt að verulegu leiti t.d. vegna breyttra veðurskilyrða eða breytingu á braut í notkun, er strengnum skipt út með breyttu bókstafsgildi í lokin. Þannig getur flugmaður staðfest við flugturn að hann hafi nýjustu upplýsingar frá ATIS þjónustunni. Strengur getur breyst í millitíðinni vegna minni breytinga (vindur, hiti, o.fl.) án þess að útgáfustaf sé breytt. Upplýsingapakkar byrja á ALPHA í upphafi dags.
Byrjum á að hlusta á ATIS skilaboð frá Reykjavíkurflugvelli þann 6. apríl 2009:
{mp3remote}http://www.fisflug.is/images/media/reykjavikatis.mp3{/mp3remote}
Við skulum byrja á að fá efni strengsins inn á textaformi:
Reykjavik Airport ATIS information PAPA at one-niner-five-zero UTC. Runway 01 in use. Expect localizer DME approach runway 13 circle to land runway 01. Wind 060 degrees 5 knots. Visibility 10 kilometers or more. Light rain. Cloud ceiling broken at 1500 feet. Overcast at 2300 feet. Temperature 4. Dew point 2. QNH zero-niner-niner-six (0996) hectopascal 29 decimal (komma) 43 inches. Transition level 75. Runways wet. Advice on initial contact. You have information PAPA.
Úr þessu má lesa eftirfarandi lykilatriði:
- Upplýsingapakki merktur PAPA.
- Upplýsingar síðan kl. 19:50. UTC þýðir Coordinated Universal Time (við á Íslandi erum á UTC tímabelti).
- Braut 01 í notkun.
- Svo koma upplýsingar um að hægt sé að fljúga eftir aðflugsgeisla (sé búnaður til þess í vélinni auðvitað).
- Vindur er 5 hnútar, í 60°. (Braut 01 er í 10° þannig að gera má ráð fyrir hliðarvindi upp á 50°).
- Skyggni er 10km eða betra.
- Úðarigning eða rigning á köflum.
- Skýjahæð brotin í 1500 fetum en skýjahula í 2300 fetum.
- Hiti 4°C
- Daggarmark 2°C
- Loftvog (QNH) 996 millibör 29,43 tommur (mercury)
Uppfært vegna kærkominna leiðréttinga frá Hálfdáni Ingólfssyni fisflugmanni og flugstjóra (þar sem Transition Level 75 var túlkað sem brautarhæð – sem er vitlaust) (sjá í athugasemdum neðan greinar):
Transition Level 75 þýðir “skiptilag 75”, þ.e. í lækkun skal skipta úr STD (1013.2 hPa) í QNH (staðarþrýsting, þarna 996 hPa) í gegnum fluglag 075 (þegar hæðarmælirinn sýnir 7500 fet). Í klifri er hinsvegar talað um skiptiHÆÐ þegar skipt er frá staðarþrýstingi í STD (1013 hPa). “Fluglag” er blindflugshæð (í hundruðum feta, t.d. FL110 samsvarar 11000 fetumþegar loftþrýstingur er 1013 hPa. Í farflugi (blindflugi) eru notuð fluglög, þ.e. allir eru eins innbyrðis, jafnvel þó flogið sé á milli svæða með mjög mismunandi loftþrýsting, t.d. úr djúpri lægð á Íslandi í hæðarsvæði á Kanarí.
- Brautarástand: Blautt.
- Tilkynntu þig inn þegar þú nálgast völl (turn)
Því næst er samskiptastreng lokað með “You have information PAPA”. Nú þegar við vitum hvaða braut er í notkun er bara að haga flugi í samræmi við það og tilkynna á réttum stað. Mikilvægt er að stilla hæðarmæli m.v. uppgefnar loftþrýstingstölur. Þegar flugturn hefur svo svarað, staðfestir flugmaður að hann hafi upplýsingar “PAPA”. Þetta gefur flugumferðarstjóra til kynna að flugmaður er með nýjustu upplýsingar þótt hann tvítryggi vissulega samskiptin með að tilkynna hvaða braut er í notkun og númer vélar í röð ef fleiri en ein er í aðflugi.
Viljir þú æfa þig í að hlusta á ATIS upplýsingar, getur þú ýmist hlustað á tíðni 128.100 í talstöðinni þinni eða hringt í síma 569-4225. Hafir þú áhuga á að þykjast vera flugstjóri á 757, getur þú hlustað á Keflavík ATIS á tíðninni 128.300. Einnig er mjög sniðugt að hlusta á BIRK turninn á 118.000 en með því má ná tökum á samskiptum við turninn þar sem þau fara fram á mjög stöðluðu formi. Það er því ágætis æfing að reyna að botna setningar flugmanna sem eru að tilkynna sig inn til lendingar.
Hafið þó í huga að upplýsingar þessar gefa til kynna veður- og brautarskilyrði á BIRK (Reykjavíkurflugvelli). Það þarf þ.a.l. ekkert að gefa til kynna um nærliggjandi velli. ATIS upplýsingar ættu því einungis að notast til að nálgast t.d. loftvogarupplýsingar og skýjahæð ef flug er á annað borð ekki planað á viðkomandi flugvöll. Margar af þessum upplýsingu kunna því að vera staðbundnar og það ber að hafa í huga við upplýsingaöflun.
Athugið að greinin er skrifuð af áhugamanni og er hugsuð sem stuttur upplýsingapistill frekar en kennsluefni. Ábendingar og athugasemdir sendist á webmaster[hjá]fisflug.is .
Viðbót: ATIS skilaboð tekin um miðjan dag á BIRK (7. apríl, 2009 kl. 13:00):
{mp3remote}http://www.fisflug.is/images/media/birkatiskl13.mp3{/mp3remote}