NOTAM – hvað er það?

notamNOTAM er stytting á enska hugtakinu “Notice to Airmen” eða tilkynning til flugmanna (og kvenna til að gæta hlutleysis á þessum tímum).  Hér er um að ræða tilkynningar sem flugmálayfirvöld (í okkar tilfelli Flugstoðir og Flugmálastjórn) gefa út opinberlega á alþjóðlegu formi skv. staðli ICAO, eða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.  Hér fer fram stuttur pistill um hvernig NOTAM tilkynningar eru skráðar og hvernig skal umgangast þær þegar hugað er að flugi.


NOTAM eru sem fyrr segir gefnar út af flugmálayfirvöldum í hverju landi fyrir sig.  Þær geta táknað allt frá lokun flugsvæða niður í smávægilegar viðvaranir s.s. vegna framkvæmda eða bilana í búnaði.  Menntun einka- og atvinnuflugmanna tekur NOTAM strangt fyrir en fisflugmenn þurfa ekki sérstaklega að sýna fram á þekkingu á NOTAM tilkynningum.  Það er þó mikilvægt að fisflugmenn tileinki sér þekkingu á þessu sviði og kunni að fara með þau skilaboð sem þar fara fram ef fljúga á í kringum þekkt loftrými eða ef fljúga á í kringum þekkta flugvelli og lendingarstaði.

Þegar NOTAM tilkynning er send út er hún m.a. birt á vef Flugstoða og skráð á ákveðnu formi sem fylgir reglum ICAO um framsetningu og rithátt.  Þar koma helst þessi atriði fram:

  • Hættur á borð við fallhlífastökk, svifflug, flugsýningar, svifdrekaflug, eldflaugaskot o.fl.
  • Tímabundnar lokanir vegna flugs háttsettra einstaklinga, t.d. forseta, oft kallað TFR (Temporary Flight Restrictions) – lítið viðeigandi hér á landi.
  • Lokaðar flugbrautir
  • Bilun eða takmarkanir á radíóvitum eða öðrum flugleiðsögubúnaði
  • Takmarkanir vegna hernaðaræfinga
  • Bilanir í ljósaviðvörunarbúnaði á háum mannvirkjum s.s. krönum og byggingum
  • Tímabundnar hindranir vegna framkvæmda í nágrenni flugvalla, s.s. kranar
  • Óvenjulegur fjöldi fugla um flugsvæði eða í námunda við flugvöll (oft nefnt BIRDAM)
  • Takmarkanir vegna snjóa eða ísingar á flugvelli (oft nefnt SNOWTAM)
  • Takmarkanir vegna eldsumbrota, ösku eða ryks (oft nefnt ASHTAM)
  • Aðrar tilkynningar vegna viðhalds eða breytinga á tölvubúnaði flugkerfa.

Form NOTAM tilkynninga

NOTAM tilkynningar eru skráðar á ákveðnu formi frá ICAO.  Þrátt fyrir að víða sé brotalöm á framsetningu NOTAM tilkynninga er víðast hvar notast við staðal ICAO, þ.m.t. hér á Íslandi.  Þetta form er flugmönnum kynnt sem ákveðinn lykill til aflestrar.  Brotinn niður í smærri einingar er hann gróflega sem hér segir:

  • Fyrsta lína inniheldur upplýsingar um seríunúmer tilkynningar, lotunúmer og ártal útgáfu hennar.  Í enda NOTAM kemur svo stafur sem stendur fyrir NEW, REPLACE eða CANCEL, þ.e.a.s. hvort um sé að ræða nýja tilkynningu, endurnýjun eldri eða afskriftar hennar.
  • Q línan innheldur svo upplýsingar um hvaða flugsvæði tilkynningin á við og einskonar fyrirsögn hennar skv. stöðlum ICAO.
  • A lína segir svo til um hvaða flugvöllur á í hlut, nú eða flugsvæði, en taka verður inn í myndina að tilkynningin getur náð langt út fyrir viðkomandi flugvöll eða svæði sem hún á við um.
  • B og C lína gefa til kynna upphafs- (B) og lokadagsetningu (C) tilkynningarinnar.  Þetta er skráð á amerísku dagsetningarformi (YY/MM/DD) og miðast við GMT tímastaðalinn.
  • Oft fylgir D hluti fyrrgreindri tímatakmörkun en þá er um tilkynningu að ræða sem á við um takmörkun úr degi en getur þó teygt sig yfir nokkra daga, t.d. ef um fallhlífastökksæfingar væri að ræða yfir nokkurra daga tímabil en á föstum tíma alla daga.
  • E lína inniheldur svo nákvæmari lýsingu tilkynningarinnar.  Hún er skráð á ensku en stytt skv. staðli og í sem fæstum orðum.
  • Fylgi F og G með í tilkynningu, er um takmarkanir á hæðarrými þess svæðis sem um getur.  Þar er hefð fyrir að nota SFC fyrir sjávarmálshæð og UNL fyrir ótakmarkaða hæð en svo má þrengja hæðina frekar.

Tökum fyrir NOTAM frá Flugstoðum til athugunar:

A0072/09 NOTAMN
Q) BIRD/QOBCE/IV/M/000/999/
A) BIRK
B) 0903260830 C) 0906261500
E) RWY31 CRANE ERECTED 1973 METRES EAST OF THR RWY31 AND 279 METRES NORTH OF CENTRELINE. HEIGHT OF CRANE 228 FEET MSL. RADIUS OF CRANE 60 METRES. CRANE FITTED WITH OBSTACLE LIGHTS. CRANE POSITION: 64-07-19.169N 021-53-37,026W)

Þarna er um að ræða tilkynningu úr seríu A0072 frá árinu 2009 og er ný tilkynning (N). Hún á við um flugsvæðið Reykjavík (BIRD) og varðar (Q) hindrun (OB: Obsticle) í aðflugsstefnu (CE).  Hún á bæði við um blind- (I: IFR) og sjónflug (V: VFR).  M stendur svo fyrir tilkynningu sem varðar óskilgreint (Miscelaneous) svið (scope).  A gefur sem fyrr til kynna hvaða flugvöll um ræðir eða BIRK, Reykjavíkurflugvöll.  Gildistími tilkynningarinnar er frá 08:30, þann 26. mars 2009 til og með 15:30 þann 26. júní 2009.  Nánari skilgreining segir að við flugbrautarenda (eða aðflugsstefnu) brautar 31 er búði að reisa krana sem nær í 228 feta hæð (frá sjávarmáli) og teygir sig í 60m radíus.  Hann er búinn viðvörunarljósum.  Þvínæst fylgir GPS hnit kranans til merkingar inn á flugkort.

Í stuttu máli eru NOTAM ekki sérlega þægileg aflestrar leikmönnum án lykilsins en þó skyldu flugmenn alltaf kanna fyrst hvort um sé að ræða einhver NOTAM sem snerta flug á þá flugvelli eða í gegnum þau flugsvæði sem fljúga skál á eða í kringum.  Einnig skal ávallt taka til athugunar þá flugvelli eða lendingarstaði sem á leiðinni eru, kunni að koma til óvæntrar lendingar.  Þannig má í fljótu bragði lesa NOTAM og sjá hvort kanna þurfi frekar ákveðnar tilkynningar m.t.t. þess flugs sem planað er.  Tökum dæmi:

A-NOTAM no. 0072/09 BIRK construction crane.
A-NOTAM no. 0054/09 BIKF OBS LGT
A-NOTAM no. 0053/09 BIRK night restrictions.
A-NOTAM no. 0049/09 BIKF obs lgt
A-NOTAM no. 0038/09 BIRK RWY24 crane.

Þarna má sjá nokkrar tilkynningar af vef Flugstoða (einnig fáanlegt á þessum vef undir liðnum Flug-Flugupplýsingar).  Þarna finnast í stuttu máli tilkynningar sem eiga eingöngu við um flugvellina BIRK og BIKF sem kunna ekki að varða flug okkar frá t.d. Selfossi til Akureyrar, en hafa skyldi þó í huga hvort tilkynningar eigi við um flugsvæði á flugleiðinni.  Að auki má í þessum lista Flugstoða finna NOTAM-A og NOTAM-C.  Munurinn á þessum tveimur flokkum er að A flokkur á við um NOTAM sem varða tiltekin atriði á tilteknum flugvöllum en C flokkur varðar flugsvæðið sjálft eða flugvöllinn í heild.  Þannig má finna í C flokki:

C-NOTAM nr. 0031/09 Sauðárkrókur BIKR opnunartímar.
C-NOTAM nr. 0030/09 Ísafjörður BIIS opnunartímar.
C-NOTAM nr. 0029/09 Grímsey BIGR, opnunartími.

Eins og lýsingin gefur til kynna er þar að finna upplýsingar um breytingar á opnunartíma viðkomandi valla og ber að hafa í huga þegar fljúga á utan hefðbundins opnunartíma valla.  Þetta á þó sjaldnast við um fisflug en þó eru oft takmarkanir yfir sumartímann sem gætu haft áhrif á lendingar og flugtök þessara valla.  Auðvitað eru lendingar í neyð alltaf heimildar en þetta nær meira yfir þjónustutíma vallanna fyrir einka- og atvinnuflug.

NOTAM eru því í enn styttra máli mjög mikilvægar upplýsingar þegar plana á flug og ber að lesa áður en farið er í loftið.  Auðvelt er að nálgast NOTAM á farflugsvefnum (http://frosti.go.is/aero) eða á vefsíðu Flugstoða/Fisfélagsins.  Mikilvægt er að við, sem og aðrir flugmenn, förum í einu og öllu eftir þeim takmörkunum sem þar eru settar fram ef þær eiga við flug okkar og eða notkun á búnaði sem þar er takmarkaður.

Athugið að greinin er skrifuð af áhugamanni og er hugsuð sem stuttur upplýsingapistill frekar en kennsluefni.  Ábendingar og athugasemdir sendist á webmaster[hjá]fisflug.is .