Almennt
Svifdrekar og svifvængir eru vélarlaus flugför. Þegar þeim er flogið, þá eru þau alltaf á niðurleið. Hraðinn í gegnum loftið þarf að vera yfir tilteknum hraða sem er mismunandi fyrir hvern væng. Hraðinn þarf almennt að vera meiri en 25km/klst.
Þar sem vængurinn (með flugmanni) er alltaf á leið niður til jarðar, þá snýst flugið um að finna uppstreymi sem er meira en hraðinn niðurávið. Hraðinn niður er oftast nálægt 1m/s og þarf því að finna uppstreymi sem er meira en það.
Uppstreymi lofts er af mismunandi toga. Flugið byggir aðallega á hlíðaruppstreymi, hitauppstreymi og bylgjum. Auk þess nýta flugmenn oft uppstreymi við skil, þar sem tveir loftmassar mætast t.d. þegar hafgola kemur inn á landið.
Þar sem loftið er ósýnilegt er alltaf erfitt að sjá hvar uppstreymið er. Hinsvegar myndast oft ský þegar loft streymir uppávið og þekkja flugmenn uppstreymisský frá öðrum. Veðurfræði er því mikilvæg þekking fyrir góða flugmenn.
Hlíðaruppstreymi
Algengast er að flugmenn byrja flug í hlíðaruppstreymi. Það myndast þegar vindur kemur að fjalli eða hlíð og fer yfir fjallið. Þegar vindurinn (loftmassinn) fer upp hlíðina til að fara yfir fjallið, þá er komið uppstreymið sem flogið er í. Meiri vindur þýðir að meira uppstreymi er. Uppstreymið er reyndar háð lögun hlíðarinnar/fjallsins. Mjög mjótt fjall gefur lítið uppstreymi þar sem vindurinn (loftmassinn) kemst til hliðar við fjallið í stað þess að fara yfir það.
Algeng fjöll sem notuð eru við þessar aðstæður eru: Úlfarsfell, Hafrafell, Kambar, Bláfjöll og Skálafell.
Hitauppstreymi
Það myndast þegar sólin hitar jörðina. Jörðin hitar loftið sem liggur næst jörðinni. Þegar loftið við jörð er orðið heitara en loftið í kring, þá lyftist það upp og myndar hitauppstreymi.
Að vissu leiti má líkja því við þegar vatn er soðið í potti. Hellan hitar pottinn. Vatnið við botninn hitnar og þegar það hefur hitnað meira en vatnið umhverfis, þá lyftist það upp. Loftbólur af botni í sjóðandi vatni eru sambærilegar við þær bólur (hitabólur) sem hitauppstreymið er. Það er í einskonar súlum af lofti á leið upp.
Flugmenn fljúga um og leita að þessum bólum. Þegar þær finnast fljúga flugmenn í hringi í bólunum og reyna að fylgja þeim sem lengst upp.
Hitauppstreymi nær mishátt eftir dögum, en þekkt eru dæmi um svifdrekamenn á Íslandi sem náð hafa yfir 3.000metra hæð í hitauppstreymi.
Bylgjur
Þegar loftmassi fer yfir fjall eða hindrun, þá myndast við ákveðnar aðstæður endurkast þegar loftmassinn kemur niður aftan við hindrunina. Við það fer loftmassinn aftur upp og síðan niður aftur. Það má hugsa sér að þetta gerist svipað og þegar vatn rennur í læk og steinn er í læknum. Vatnið streymir yfir steininn og er yfirborð vatnsins yfir steininum hærra en yfirborð lækjarins. Aftan við steininn kemur “hola” í vatnið þar sem vatnið streymir niður. Það er síðan háð stærð og lögunar steinsins ásamt vatnshraða og magni hversu oft byljuhreyfingin er upp og niður aftan við steininn.
Bylgjuuppstreymið (þar sem loftið er á leið upp) er það sem flugmenn reyna að nýta. Bylgjur myndast reyndar oftast í miklum vindi og þá er oft ekki hægt að fljúga svifdreka eða svifvæng. Svifdreki er hraðfleygari og hafa svifdrekaflugmenn á Íslandi oft notað bylgjur til flugs. Í bylgum hafa flugmenn náð um 2km hæð í kringum Úlfarsfell. Svifflugur fljúga mun hraðar en svifdrekar og svifvængir og geta nýtt bylgjur í mun ríkari mæli.
Aðstæður sem mynda bylgjur eru oftast á haustin.