Svifvængir (paragliders)
Smelltu hér til að skoða upplýsingar um námskeið.
Hvað er svifvængur (paraglider)?
Svifvængur er vængur úr þunnum en sterkum nælondúk. Á flugi helst hann útblásinn af loftinu sem leikur um hann en engar stengur eða stífir hlutir eru notaðir. Lögun hans gefur honum nauðsynlega flugeiginleika eftir sömu lögmálum og eiga við um venjulega flugvélarvængi.
Er þetta sama og fallhlíf?
Nei alls ekki. Fallhlíf er aðallega til þess að draga úr lóðréttum fallhraða en svifvængur er notaður til svifflugs.
Er eitthvað hægt að stjórna þessu?
Já, mjög auðveldlega. Það er gert með því að toga í spotta, einn hvoru megin, og beygir þá vængurinn til þeirrar handar sem togað er í. Önnur leið til að stýra er að flugmaðurinn flytji þyngd sína svolítið til (halli sér) og beygir þá vængurinn til þeirrar handar sem þunginn færist.
Þarf maður að kasta sér fram af þverhnípi?
Nei, aldeilis ekki. Flugtak fer yfirleitt þannig fram að gola á leið upp fjallshlíð er látin lyfta vængnum og síðan hleypur flugmaðurinn niður brekku á móti vindinum. Þegar nægum hraða er náð fer vængurinn að bera flugmanninn og hann svífur burt frá brekkunni. Þannig kemst flugmaðurinn því aðeins á loft að vængurinn sé út þaninn fyrir ofan hann og byrjaður að mynda eðlilegan lyftikraft.
Er þetta ekki stórhættulegt?
Jú – fyrir þá sem fara glannalega, kunna ekki að meta aðstæður eða fljúga með búnaði eða við skilyrði sem þeir ráða ekki við. Fyrir hina er þetta ekki hættulegra en margt annað en upplifunin stórkostleg!
Kannski bara fyrir ofurhuga?
Nei! Meðal svifvængjaflugmanna eru ungir og aldnir, konur og karlar, fjölskyldur og hverjir sem er – jafnvel lofthræddir!
Hvað þarf til að tryggja öryggi?
Það eru nokkur atriði sem flugmanðurinn þarf að hafa á hreinu til þess að öryggið sé í lagi. Þessi eru þau helstu:
- Hann hafi fengið góða þjálfun og kennslu í meðhöndlun vængsins.
- Hann hafi góðan skilning á veðurfræði og hreyfingu loftstrauma, ekki síst hvernig landslag mótar loftstraumana.
- Hann viti hvar hann á að sækja sér upplýsingar um veður og hvernig á að túlka þær.
- Hann kunni að lesa í skýin og greina aðrar vísbendingar í umhverfinu um það hvað loftið er að gera.
- Hann sé með búnað sem gerir hæfilegar kröfur til flugmannsins miðað við reynslu hans og þjálfun.
- Flugmaðurinn þarf ekki bara að kunna að fljúga heldur ekki síður að fljúga ekki. Það er stundum erfitt að kyngja því, eftir að hafa gengið með vænginn upp á fjall, að aðstæður hafi versnað og þurfa þá að hætta við flug.
Er erfitt að ná valdi á vængnum?
Nei, flestum reynist það auðvelt og eftir nokkurra daga æfingar geta flestir tekið stutt flug. Það er yfirleitt vandasamara að eiga við vænginn á jörðu niðri og koma honum á loft en að stjórna honum þegar hann er kominn á loft.
Hvernig lendir maður?
Maður svífur einfaldlega niður til jarðar og með því að lenda á móti vindi og hægja á vængnum rétt fyrir lendingu er auðvelt að stíga niður til jarðar og láta síðan vænginn falla.
Hvernig fer þjálfun fram?
Nemandinn lærir fyrst að leggja vænginn þannig að hann sé tilbúinn til flugs, síðan að láta vindinn grípa hann líkt og flugdreka og loks á láta vindinn lyfta vængnum upp og stöðvast útþaninn fyrir ofan sig. Jafnframt eru æfðar aðferðir til að komast á loft í litlum sem engum vindi en það byggist á því að hlaupa af stað og láta mótstöðu loftsins leika hlutverk vindsins. Reyndar fer mestöll þjálfunin fram á jörðu niðri því næstum öll viðbrögð við hreyfingum vængsins má æfa á jörðinni. Það er mikilvægt fyrir alla svifvængjaflugmenn, reynda sem óreynda, að halda við þjálfuninni með því að æfa sig oft og mikið á jörðinni.
Þegar nemendur hafa náð grunntökum á vængnum geta þeir látið hann lyfta sér svolítið frá jörðu á leið niður brekku, kannski 1-2 metra frá jörðu. Þá hentar að æfa lendingar. Þegar flugið lengist og hækkar byrja nemendur að fá tilfinningu fyrir því að beygja og hvernig vængurinn lætur að stjórn á flugi.
Það er tiltölulega auðvelt að ná valdi á vængnum og geta flogið. Það sem er öllu snúnara – og er því ekki síður mikilvægur hluti þjálfunarinnar – er að kunnað meta aðstæður til flugs. Kennarinn leiðbeinir nemandanum um það hvernig hann á að meta aðstæður og taka ákvörðun um það hvort hyggilegt er að fljúga eða ekki.
Hve hratt flýgur vængurinn?
Venjulegir vængir sem henta byrjendum og meðalreyndum flugmönnum fara með um 10 m/s (36 km/klst) hraða miðað við loftið sem hann flýgur í. Hraðinn miðað við jörðu fer síðan eftir því hve hratt loftið fer miðað við jörðina. Ef t.d. vindurinn blæs með 4 m/s hraða úr norðri og vængurinn flýgur innan loftmassans með 10 m/s hraða, færist vængurinn til norðurs miðað við jörðu með 6 m/s hraða. Að sama skapi fer vængurinn hraðar þegar flogið er undan vindi, eða í þessu tilfelli með 14 m/s hraða ef flogið væri í suður.
Í hve miklum vindi er óhætt að fljúga?
Þegar vindhraði við jörðu er kominn yfir 5 m/s er farið að verða vandasamt að eiga við vænginn og koma honum á loft. Ef flugmaðurinn kemst á loft við þær aðstæður má búast við að vindhraði sé eitthvað meiri þegar upp er komið. Þá er hraði vængsins miðað við jörðu orðinn býsna lítill þegar flogið er móti vindi en að sama skapi mikill þegar farið er undan vindi. Þegar vindhraði til flugs er metinn er ekki síður mikilvægt að athuga hvort vindurinn er jafn og ótruflaður af landslagi. Annars geta komið upp vindhvirflar sem eru varasamir.
Er hægt að fara hvaðan sem er, hvert sem er?
Nei. Flug á svifvæng byggist á því að flugmaðurinn finni sér uppstreymi sem ber vænginn uppi, annars svífur hann bara niður. Uppstreymi er einkum af tvennum toga, annars vegar vindur sem er á leið upp fjallshlíð og hins vegar “bólur”, þ.e. uppstreymi lofts sem hefur hitnað við yfirborð jarðar í sólskini og flýtur upp eins og gufubóla í sjóðandi vatni. Þegar flogið er í vindi sem streymir upp fjallshlíð er flugmaðurinn að mestu bundinn við þann stað. Þegar flogið er í bólum er hægt að fara úr einni í aðra, allt eftir virkni loftsins og útsjónarsemi flugmannsins. Í hvoru tilfellinu sem er geta heppilegar aðstæður iðulega boðið upp á flug sem varir hálfa til eina og hálfa klukkustund en oft lengur og lengstu flug sem flogin hafa verið á Íslandi eru um 90 km og hafa varað margar klukkustundir. Erlendis eru lengstu flug á svifvæng yfir 400 km.
Flugtaksstaðurinn skiptir líka miklu máli. Hann þarf að vera hæfilega hallandi niður brekku eða fjallshlíð og þýður vindur þarf að koma nokkurn veginn beint upp hlíðina. Flugtaksstaðir eru því valdir eftir því hvaðan vindurinn blæs hverju sinni. Þá er mikilvægt að yfirborð sé sæmilega slétt svo línur festist ekki og flugmaðurinn hnjóti ekki um ójöfnur í flugtaki.
Eru einhver aldurstakmörk?
Nei. Dæmi eru um að unglingar, 14-15 ára hafi tekið námskeið og það eru sannarlega engin efri mörk. Það sem setur helst skorður er þroski manna og hæfni til að meta aðstæður til flugs.
Þarf leyfi til að stunda svifvængjaflug?
Nei, það er öllum frjálst. Það er hins vegar mjög gagnlegt að vera í félagi þar sem þeir óreyndu læra af hinum og félagsmenn vinna saman að því að tryggja góða aðstöðu, gott öryggi og margar sameiginlegar ánægjustundir.
Hvað kostar búnaður?
Grunnbúnaður, þ.e. vængur, sæti með varafallhlíf og hjálmur, kostar um 600 þúsund. Venjulegur vindþéttur og hlýr útivistarfatnaður dugar vel. Margir flugmenn kaupa líka GPS tæki og talstöð.
Hvernig fer ég að því að velja búnað?
Það mikilvægasta er að velja búnað sem er nýr og frá viðurkenndum framleiðanda. Ástæðan fyrir því að eldri búnaður er varasamur er sú að þróun svifvængja hefur verið hröð á undanförnum árum og nýrri vængirnir því mun betri en þeir sem eru aðeins fárra ára gamlir. Þá er líka varasamt að kaupa notaðan væng með óljósa sögu því margt getur orðið til þess að vængir ganga hratt úr sér ef ekki er vel með þá farið. Sem dæmi má nefna að ef vængur lendir í vatni geta línurnar hlaupið mismikið og form vængsins þess vegna aflagast. Þetta getur gert hann óstöðugan og varasaman.
Allir framleiðendur svifvængja bjóða upp á vængi sem henta byrjendum. Velja þarf stærð vængs (flatarmál) sem hentar þyngd flugmannsins.
Nokkrir aðilar hér á Íslandi annast innflutning á svifvængjum og tengdum búnaði.
Hvernig háttar til flugs á Íslandi?
Að mörgu leyti mjög vel. Hafgola á sumardögum sem leitar upp fjallshlíð nálægt ströndinn, býður upp á góðar aðstæður til flugs. Víða erlendis eru lendingarstaðir vandfundnir vegna þess að hver blettur er annaðhvort skógi vaxinn eða nýttur fyrir byggð eða akuryrkju. Það er ekki vandamál hér. Á hinn bóginn getur á Íslandi verið langur gangur að næsta vegi eða byggðu bóli ef hitauppstreymi hefur borið menn langar leiðir. Á vetrum er lítið flogið enda veður mjög óstöðug og loftið kalt.
Þetta hljómar vel, hvernig get ég byrjað?
Gott er að byrja á því að afla frekari upplýsinga en hér koma fram, t.d. með því að leita á vefnum, kaupa bækur og horfa á myndskeið sem nóg er af á vefnum líka. Til er allgott úrval kennsluefnis á DVD um alla þætti flugsins og veðurfræðina, auk kvikmynda sem greina frá stórkostlegri upplifun fólks í þessu skemmtilega sporti. Svo er gott að hitta fisflugmenn, t.d. á félagsfundum hjá Fisfélaginu en þeir eru haldnir fyrsta fimmtudag hvers mánaðar.
Get ég fengið kennslu?
Fisfélagið stendur fyrir námskeiðum einu sinni á ári, frá miðjum maí fram í miðjan júní. Venjulegt námskeið stendur í um tvær vikur og að því loknu geta nemendur tekið stutt flug. Síðan skiptir miklu máli að fylgja þeim sem lengra eru komnir og njóta leiðsagnar þeirra. Fisfélagið er ákjósanlegur vettvangur slíkrar leiðsagnar. Sjá nánar um námskeið hér.