Hvað er paramótor?
Það er flygildi þar sem notaður er svifvængur eins og í svifvængjaflugi en sætið er með mótor sem knýr loftskrúfu aftan við bak flugmannsins.
Hver er munurinn á paramótorflugi og svifvængjaflugi?
Munurinn felst einkum í því að með mótor má hefja sig til flugs af jafnsléttu, fara hvert sem er og lenda hvar sem er að því marki sem aðstæður í lofti og á jörðu leyfa.
Er hægt að fljúga með mótor við erfiðari aðstæður en án mótors?
Nei, eiginlega þvert á móti. Heppilegast (og ánægjulegast) er að fljúga með mótor í tiltölulega stöðugu og kyrru lofti. Þegar flogið er með mótor er flugmaðurinn ekki upp á náttúruna kominn með orku til flugsins og getur því flogið við kyrrari aðstæður sem bjóða ekki upp á svifvængjaflug án mótors.
Hvað fer maður hratt með mótor á bakinu?
Maður fer nokkurnveginn jafn hratt og án mótors því það eru flugeiginleikar vængsins sem ákveða hraðann en ekki knýr mótorsins. Þar sem sams konar vængur er notaður og í mótorlausu svifvængjaflugi er hraðinn sá sami. Að vísu verður hraðinn lítið eitt hærri með mótor því yfirleitt er meiri þyngd á flatareiningu vængs þegar flogið er með mótor og það veldur því að vængurinn þarf að fara hraðar til að mynda aukinn lyftikraft. Það er hins vegar bara spurning um þyngd, ekki kný mótorsins.
Hvað gerir þá mótorinn?
Hann breytir því einu að vegna knýsins hangir flugmaðurinn framar undir vængnum en í mótorlausu flugi og vængurinn hallast meira upp á við og er þá í klifurstöðu miðað við loftmassann í kring. Með því að breyta kný loftskrúfunnar (þ.e. breyta snúningshraða mótorsins) breytist þetta horn vængsins og þannig er því stjórnað hvort vængurinn klifrar (hár snúningshraði), flýgur lárétt (meðalhraði) eða svífur niður á við (lágur snúningshraði).
Er þá ekki gott að hafa rosalega kraftmikinn mótor?
Nei. Knýr mótorsins þarf að vera í hæfilegu jafnvægi við þyngd flugmannsins. Ef knýrinn er of lítill getur flugtak orðið erfitt og vængurinn klifrar hægt. Ef knýrinn er of mikill getur fengist brattara klifur en þá er líka mótorinn væntanlega óþarflega þungur og kraftar meiri en góðu hófi gegnir fyrir stöðugleika og jafnvægi.
Hvað þarf langa flugbraut?
Það er misjafnt en gott að hafa a.m.k. 50 metra sæmilega sléttan flöt til að hlaupa eftir án þess að hnjóta um ójöfnur. Enn lengra framundan mega ekki vera hindranir á borð við girðingar, hús, tré o.s.frv. Ef gola er á móti verður flugtakið syttra og brattara.
Þarf maður að kunna svifvængjaflug áður en maður flýgur með mótor?
Það er hægt að læra að fljúga með mótor frá byrjun og til eru flugskólar erlendis sem bjóða slíka þjálfun. Það er hins vegar bjargföst skoðun þess sem þetta ritar að hyggilegast sé að læra á vænginn fyrst án mótors og bæta mótornum svo við síðar.
Er boðið upp á þjálfun í paramótor hérlendis.
Nei.
Hvað er hægt að fara hratt, hátt og langt?
Flughraðinn er, eins og áður hefur komið fram, um 40 km/klst m.v. loftmassann. Algengt flugþol mótora er um 3 klst og því hægt að komast yfir u.þ.b. 120 km vegalengd í logni, styttra í mótvindi og lengra í meðvindi. Flughæð getur verið mjög mikil og dæmi um að menn hafi farið allt upp í 5.000 metra hæð erlendis.
Þarf mikla líkamlega krafta til að bera mótorinn?
Nei. Algeng þyngd mótora er 20-25 kg + eldsneyti. Það er nokkuð þung byrði meðan mótorinn er borinn á jörðu niðri en ekki svo þung að manneskja í þokkalegu góðu formi geti ekki valdið henni. Í flugtaki þarf að hlaupa með þessa þyngd á bakinu stuttan spöl og vinna á móti vængnum að auki. Um leið og skriður er kominn á væng og flugmann fer vængurinn að bera sívaxandi hluta þungans uns hann hefur tekið á sig þunga mótors og flugmanns og hvort tveggja hefst á loft.
Er mótorinn fyrirferðarmikill?
Nei. Flestir framleiðendur hafa hannað mótorana þannig að búrið kringum loftkrúfuna má taka í sundur og þá kemst mótorinn í farangursgeymslu fólksbíls. Þetta er þannig eina flugvélin sem hægt er að ferðast með í farangrinum.
Er hægt að taka myndir meðan maður flýgur?
Já. Það er varla hægt að ímynda sér betra tæki til loftmyndatöku því það flýgur hægt og ekkert skyggir á. Almennt er þó gott, eins og alltaf í svifvængjaflugi, að hafa báðar hendur á bremsunum til að vera viðbúinn óróa í loftinu.
Hvað kostar paramótor?
Algengt verð er 500 – 600 þúsund. Við bætist vængur og hjálmur.
Er hægt að nota sama væng og í svifvængjaflugi?
Já, yfirleitt er það hægt. Það er ekki talið koma að sök þótt þyngd flugmanns og mótors fari yfir efri þyngdarmörk vængsins miðað við mótorlaust flug. Vængurinn verður þá aðeins stöðugri og flýgur lítið eitt hraðar. Að sama skapi verður þá lendingarhraðinn meiri og lendingin svolítið vandasamri.
Er þetta jafn auðvelt og myndskeiðin á vefnum sýna?
Næstum því. Flest myndskeiðin á vefnum sýna flugtak í fáeinum skrefum, alveg fyrirhafnarlaust. Þá er nokkuð stíf gola á móti flugtakinu sem þýðir að flughraði miðað við jörðu verður lítill í þá átt en mikill í gagnstæða átt. Ef flogið er í logni, með jafnan hraða miðað við jörðu í allar áttir, er engin gola á móti til hjálpar og þá er mikilvægt að geta hlaupið af krafti í flugtakinu. Halli niður í móti er góð hjálp þegar taka þarf á loft í logni.
Er flogið á sama hátt og í svifvængjaflugi?
Já, að mestu leyti. Þó er minna svigrúm til að nýta þyngdartilfærslu til að beygja vegna þess að yfirleitt er festing vængsins við sætið ofar á sætinu en í venjulegum svifvængjasætum. Bremsurnar eru því meira notaðar til að beygja en það kemur ekki að sök því mótorinn bætir upp þá orku sem tapast við að beita bremsunum.
Hvers konar mótorar eru notaðir?
Langoftast er um að ræða 15-20 hestafla tvígengisvélar með gírkassa eða reimdrifi sem gefur hæfilegan snúningshraða fyrir loftskrúfuna. Tvígengisvélar eru tiltölulega aflmiklar miðað við þyngd og eru einfaldar að auki. Þær henta því vel til þessara nota. Á móti kemur að þær eru nokkuð hávaðasamar og ekki eins gangþýðar og fjórgengisvélar.
Þarf réttindi til að fljúga paramótor?
Nei, í reglugerð um fis er ekki gerður greinarmunur á fisum með og án mótors meðan flugtak er á fæti. Ef hins vegar paramótor tekur á loft með hjólabúnaði er talið að um mótorfis sé að ræða og þá þarf próf og leyfi.
Hvernig hentar Ísland til paramótorflugs?
Að mörgu leyti vel. Hér er víða aðgengilegt sléttlendi og tún til flugtaks og lendingar. Björt og kyrr sumarkvöld eru ákjósanleg til flugs og sannarlega margt að sjá og skoða í íslenskri náttúru. Á hinn bóginn eru tækifæri til flugs á vetrum takmörkuð og alltaf er nauðsynlegt að vera á varðbergi gagnvart veðrabreytingum. Eins og í mótorlausu svifvængjaflugi byggist öryggi fyrst og fremst á því að skilja hreyfingar og eðli andrúmsloftsins sem ber vænginn uppi.