Stefnt að 60 m. kr. sparnaði Flugstoða

Stefnt er að 60 milljóna króna sparnaði í rekstri flugvalla landsins á þessu ári. Framlag ríkisins til framkvæmda og rekstrar flugvalla landsins og flugleiðsöguþjónustu þeim tengdum hefur verið skorið mikið niður. Dregið verður úr þjónustu á mörgum flugvöllum en áhersla lögð á kjarnastarfsemina þ.e. áætlunarflug og sjúkra- og neyðarflug.

Breytingar verða á þjónustu hjá 13 flugvöllum og fjórum lendingarstöðum verður lokað frá og með marsmánuði. Flugumferðarstjórn verður lögð niður á Vestmannaeyjaflugvelli frá 1. apríl en þess í stað veitt flugupplýsingaþjónusta. Reglubundið vetrarviðhald og veiting flugupplýsingaþjónustu frá turni verður lögð af á húsavíkurflugvelli frá 1. apríl. Markviti flugvallarins á Raufarhöfn verður lagður af og á Stykkishólmsflugvelli verður veitingu flugupplýsingaþjónustu hætt frá 1. september og 1 ágúst verður hætt rekstri á aðflugshallaljósum og radíóvita flugvallarins.

Samkvæmt þjónustusamningi milli Flugstoða ohf og samgönguráðuneytisins fyrir árið 2009, sem kveður á um hvaða þjónusta skuli veitt á flugvöllum landsins og hvað fyrir hana er greitt, er gert ráð fyrir miklu aðhaldi og sparnaði í rekstri. Auk þess er gert ráð fyrir  lækkun á  þjónustustigi ýmissa þátta í flugvallarkerfi landsins til að ná settu marki um lækkun kostnaðar.  Ástæðan er sú að framlag ríkisins til framkvæmda og rekstrar flugvalla landsins og flugleiðsöguþjónustu þeim tengdum hefur verið skorið mikið niður. Þess hefur þó verið gætt að skerðing á þjónustu verði í lágmarki og áhersla lögð á kjarnastarfsemina þ.e. áætlunarflug og sjúkra- og neyðarflug. Stefnan er að þessar sparnaðaráætlanir skili um 60 milljónum lægri kostnaði á yfirstandandi ári.

Samkvæmt áætlun sem gildir fyrir árið 2009 verða eftirfarandi breytingar gerðar á þjónustu flugvalla:

Reykjavíkurflugvöllur 
Þjónusta að degi til verður óbreytt.  Frá 2. mars verður á tímabilinu frá kl. 23:00 til 07:00 opið fyrir sjúkra- og neyðarflug eins og verið hefur, en þó þarf að biðja um þjónustu fyrir hvert flug.  Vegna beiðni um þjónustu fyrir annað flug sjá handbók flugmanna.

Akureyrarflugvöllur
Þjónusta að degi til verður óbreytt.  Frá 2. mars verður á tímabilinu frá kl. 23:00 til 07:00 opið fyrir sjúkra- og neyðarflug eins og verið hefur, en þó þarf að biðja um þjónustu fyrir hvert flug.  Vegna beiðni um þjónustu fyrir annað flug sjá handbók flugmanna.

Vestmannaeyjaflugvöllur
Veitt verður flugupplýsingaþjónusta í stað flugumferðarstjórnar frá 1. apríl að telja.  Flugumferðarstjórn verður þó veitt yfir tímabil þjóðhátíðar. Þjónustutími verður styttur og verður eftirfarandi :
1. apríl – 10. júní:  alla daga   07:30-19:30
11. júní – 10. ágúst:  alla daga   07:30-20:30
11. ágúst – 30. sept.:  alla daga   07:30-19:30
1. okt. – 1. apríl:  mánud. – laugard.  07:00-19:00
sunnud.   09:00-19:00

Ísafjarðarflugvöllur
Frá 1. apríl verður þjónustutíma styttur, þannig að hann hefst kl 08:00 að morgni í stað 07:00 áður.

Þingeyrarflugvöllur
Frá 1. maí verður þjónusta við áætlunar, sjúkra- og neyðarflug samkvæmt beiðni fyrir hvert flug.

Bíldudalsflugvöllur
Frá 1. apríl verður þjónustutími flugvallarins styttur og miðast  við áætlunarflug. Þjónusta við sjúkra og neyðarflug verður óbreytt. Óska verður sérstaklega eftir þjónustu við annað flug utan þjónustutíma, sem verður eftirfarandi:
virkir dagar  08:00-13:00
sunnud.  11:00-14:00

Grímseyjarflugvöllur
Frá 1. apríl miðast þjónustutími flugvallarins við áætlunarflug. Þjónusta við sjúkra- og neyðarflug verður óbreytt. Óska verður sérstaklega eftir þjónustu við annað flug utan þjónustutíma, sem verður eftirfarandi:
Til 31. maí:   þriðjud., föstud., sunnud.  13:00-17:00
1. júní – 31. ágúst:  alla daga    12:00-17:00
1. sept. – 31. maí: þriðjud., föstud., sunnud.  13:00-17:00

Hornafjarðarflugvöllur
Frá 1. apríl verður þjónustutími flugvallarins styttur og miðast við áætlunarflug. Þjónusta við sjúkra- og neyðarflug verður óbreytt. Óska verður sérstaklega eftir þjónustu við annað flug utan þjónustutíma, sem verður eftirfarandi:
mánud., miðvikud., föstud.  07:00-18:30
þriðjud., fimmtud.   15:00-18:30
sunnud.    14:00-17:00

Sauðárkróksflugvöllur
Frá 1. apríl verður  þjónustutími flugvallarins styttur og miðast við áætlunarflug. Þjónusta við sjúkra- og neyðarflug verður óbreytt. Óska verður sérstaklega eftir þjónustu við annað flug utan þjónustutíma, sem verður eftirfarandi:
þriðjud., fimmtud.   07:30-10:30
þriðjud., fimmtud., föstud.  17:30-20:30
sunnud.   16:30-19:30

Stykkishólmsflugvöllur
Frá 1. september verður veitingu flugupplýsingaþjónustu  hætt. 1 ágúst verður hætt rekstri á aðflugshallaljósum og radíóvita flugvallarins. Annar ljósabúnaður og tæki í flugturni verða áfram til notkunar. Áfram verður þó hægt að nota flugvöllinn og búnað hans í samráði við Flugstoðir.

Blönduósflugvöllur
Í marsmánuði verður hætt rekstri á aðflugshallaljósum, radíóvita og markvita flugvallarins. Áfram verður þó hægt að nota flugvöllinn og búnað hans í samráði við Flugstoðir.

Húsavíkurflugvöllur
Reglubundið vetrarviðhald og veiting flugupplýsingaþjónustu frá turni verður lögð af frá 1. apríl. Rekstri á aðflugshallaljósum verður hætt í marsmánuði. Önnur flugbrautarlýsing og turnbúnaður verður áfram til notkunar. Áfram verður þó hægt að nota flugvöllinn og búnað hans í samráði við Flugstoðir.

Raufarhöfn
Markviti flugvallarins verður lagður af. Áfram verður þó hægt að nota flugvöllinn og búnað hans í samráði við Flugstoðir.

Þá verður fjórum lendingarstöðum lokað frá og með marsmánuði en það er á Dagverðará, Kaldármelum, Sprengisand og Króksstaðamelum.

Heimild: mbl.is