Fis á Vatnajökli síðastliðinn föstudag

img_063

img_063Upp úr hádeginu föstudaginn 27 mars lögðu TF140 (flugm. Gylfi Árnason) og TF105 (Árni Gunnarsson + farþegi) af stað frá Grund og ætluðu að hitta félaga Sigurjón Sindrason á Vatnajökli en þar ók hann einum af 13 jeppum sem þar voru á ferðinni. Flogið var beina GPS stefnu í Hrauneyjar þar sem lent var uþb. klst eftir brottför.  Aðstæður til lendingar þar voru góðar, 30 gráðu hliðar-gola, en hálka á veginum og kusu flugmenn að lenda á hálkuminnsta hluta vegarins þó það þýddi lengri akstur að bensínpumpunni.  Eftir áfyllingu, og hamborgara var hringt í Sigurjón sem sagði jeppana vera nýlagða á jökulinn við austurendann á Langasjó.

Golan hafði skipt um stefnu í Hrauneyjum svo farið var í loftið í öfuga átt við lendinguna, og varlega farið í hálkunni.  Eftir töluvert klifur sást til Vatnajökuls, og stefna tekinn nánast í austur sem bar við hábungu á jöklinum.  Reyndar var skyggni frábært svo það sá til sjávar í suðri, Hofsjökul í norðri, Þórisvatn og fleira, allt á kafi í snjó.  Og Lómagnúp þekktum við, fyrst frá norðvestri, en síðar norðaustri.

Eftir flug yfir Veiðivötnum þekktum við Sveinstind sem markar suðvestur endann á Langasjó, og fljótlega eftir það sáum við jeppaslóð á Vatnajökli, sennilega úr 30-40km fjarlægð.  Þegar við komum nær sáum við að hjólförin voru sennilega um 30-40cm djúp, og jepparnir ösluðu áfram í átt að tindi þar sem þeir stoppuðu og söfnuðust saman.  Við flugmennirnir töldum engar líkur á að við gætum lent á jöklinum við þessi skilyrði, án skíða.  Sigurjón var með VHS talstöð og leiðbeindi okkur inn Grímsvötn sem var um korters flug, eða um 30 km.  Þarna var töluverð norðanátt eða sennilega 15-20 m/s í okkar flughæð sem var þarna um 6000ft.  Einnig var skítkalt, Sigurjón mældi 13 stiga frost niðri á jöklinum.  Í Grímsvötnum mætti okkur fyrst hveralykt, síðan sáum við sigkatla og gufustróka.  Þá flugum við meðfram ísilagðri fjallshlíð (sennilega 200m há) og þar uppi mátti sjá skálana þrjá.  Þarna áttaði maður sig aftur á hæðum og stærðum því yfir rennisléttum jöklinum er erfitt að meta hve langt er til jarðar, og þá líka hve langt er á milli kennileita.

Þá lögðum við af stað til baka og kvöddum jeppana með lágflugi.  Að hafa þá á ferðinni þarna gaf okkur öryggistilfinningu í víðáttunni, því þeim virtust allir vegir færir.  Nú var haldið sömu leið tilbaka í vaxandi norðvestan mótvindi.  Ekki þótti ástæða til að lenda í Hrauneyjum, en ákveðið að fara á Flúðir í pissustopp.  Vegna élja urðum við að fara niður Þjórsárdalinn í stað beinnar stefnu, okkur höfðu einnig borist fregnir af éljum í Reykjavík.

Á Flúðum var hringt í bæinn og var þá komið sólskin þar eftir nokkra snjókomu um daginn.  Við ákváðum eftir veðurútlitinu að taka Mosfellsheiðina í bæinn í stað Hellisheiðarinnar og stefndum á suðurenda Þingavallavatns frá Flúðum.  Þar flugum við í útjaðri éls vestan við vatnið til norðurs og fylgdum síðan Þingavallaveginum í bærilegu skyggni.  Við Leirvogsvatn var orðið albjart og við komum að Grund í norðvestan strekkingi og lentum tíðindalítið til vesturs.  Vélarnar drifnar inn því klukkan var að verða sex, og ríkið að fara að loka.