Til greina kemur að höfuðstöðvum alþjóðlegs flugskóla verði fundinn staður á Keflavíkurflugvelli. Ef af verður gætu orðið til á annað hundrað störf fyrir tæknimenn, flugvirkja, flugmenn og fleiri. Það er hollenska fyrirtækið ECA sem kannar nú möguleika á uppbyggingu á Miðnesheiði, segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri samgönguskóla Keilis.
Hann segir lítið um málið að segja á þessu stigi, enda Keflavíkurflugvöllur aðeins einn af þeim stöðum sem forsvarsmenn flugskólans hafi skoðað.
Málið er á algeru byrjunarstigi, segir Hjálmar. Til standi að stofna flugskóla fyrir lengra komna nemendur, og kenna á ýmsar tegundir loftfara, allt frá flugdrekum að þyrlum og þotum.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ætla forsvarsmenn ECA að taka ákvörðun um staðsetningu á næstu vikum. Meðal staða sem keppa við Keflavíkurflugvöll um hylli félagsins er Goose Bay á austurströnd Kanada.
Keilir vinnur þessa dagana að uppbyggingu alþjóðlegs flugskóla á Miðnesheiði. Hjálmar segir skólann stefna að því að laða erlenda nemendur að náminu. Verði af stofnun skóla ECA á Keflavíkurflugvelli verði það í samstarfi við Keili, og gæti mögulega flýtt fyrir þeirri útrás. ECA hefur á undanförnum árum rekið alþjóðlega þyrluleigu, og leigir meðal annars Atlantshafsbandalaginu fjölmargar þyrlur sem notaðar eru í Afganistan.
Þá hefur fyrirtækið tekið að sér þjálfun herflugmanna ýmissa þjóðríkja. Stefnt er að því að halda þeirri starfsemi áfram, en slík þjálfun mun, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, fara fram í þeim löndum sem kaupa munu þjónustuna.
Verði af uppbyggingu flugskóla fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli yrði flugmönnum kennt á fjölmargar tegundir flugvéla og þyrla. Þá er stefnt að því að fyrirtækið leigi erlendum flugherjum ýmiss konar æfingabúnað, sem notaður yrði í þeim löndum sem leigja búnaðinn. Ef af verður mun viðhald á fjölmörgum flugvélum félagsins að líkindum færast hingað til lands.
Mikil leynd hvílir yfir áhuga ECA, og segja heimildarmenn Fréttablaðsins gríðarlega hagsmuni í húfi fyrir það land sem verði fyrir valinu fyrir uppbyggingu flugskólans.
Málið hefur verið kynnt fyrir Össuri Skarphéðinssyni, utanríkis- og iðnaðarráðherra, en er ekki á hans borði, segir Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður ráðherra.
brjann@frettabladid.is