AERO Friedrichshafen í fullum gangi

aerofriedrichshafen1

aerofriedrichshafen1AERO Friedrichshafen sýningin stendur nú yfir í Þýskalandi þegar þessi orð eru rituð.  Sýningin hófst formlega í gær, 2. apríl, og stendur fram yfir helgina.  Þar gefur að líta fjöldan allan af flugvélum, vélfisum, mótordrekum, og nánast öllu því sem flogið getur um loftin blá.  Þónokkrir Fisfélagar hafa heimsótt sýninguna og sumir hverjir notað hana til ákvörðunar um kaup á fisi erlendis frá.

AERO sýningin hefur fram að þessu verið haldin á 2ja ára fresti en verður héðan í frá haldin á árlega um þetta leiti.  Á sýningunni er að finna yfir 600 sýningaraðila frá öllum heimshornum og farartæki hverskonar, en það má segja að þar sé til sýningar allt sem getur flogið, utan loftfara til atvinnuflugs.

Samkvæmt nýjustu tölum telur einkaflugsgeirinn í Evrópu um 250.000 flugvélar, þar af 200.000 svifflugur, vélfis og dreka.  Áhugaverðar stærðir hér á ferð, en taka ber inn í myndina að vélar til atvinnuflugs hverskonar eru undanskildar þessari talningu og þar eiga fis engan veginn við.  Staðsetning sýningarinnar er einnig viðeigandi því yfir 90% af öllum svifflugum í heiminum eru framleiddar í Þýskalandi.

Á sýningunni er að finna mikið úrval loftfara hverskyns, s.s. einkaþotur, einkaflugvélar, vélfis og dreka.  Áhugavert er þó að sjá þróunina í vélfisum sem nálgast nú einkaflugvélar óðum, sem og einkaflugvélar sem nálgast fisin.  Þar ber helst að nefna LSA flokk einkaflugvéla en fyrirséð er að þar verði ein mesta útvíkkun einkaflugsiðnaðarins fyrr og síðar.  Æ fleiri flugmenn velja sér LSA flugvélar eða fis til einkanotkunar og áhugamáls.  Ástæðan er einfaldara regluvirki, ódýrari rekstur og viðhald, svo ekki sé talað um mun lægri verðmiða á sjálfri flugvélinni.  Má segja að þarna hafi einkaflugsgeirinn loksins fengið leyfi til að tileinka sér þann einfaldleika sem svo vel hefur verið haldið um í fisfluginu frá upphafi þess.

Þeir sem misstu af þessari sýningu geta heldur betur skipulagt sig og byrjað að safna því sýningin verður haldin að ári liðnu og næstu ár sem hér segir:

AERO 2010, April 8 – 11
AERO 2011, April 14 – 17
AERO 2012, April 19 – 22
AERO 2013, April 18 – 21
AERO 2014, April 10 – 13
AERO 2015, April 16 – 19

Fjallað verður nánar um sýninguna að henni lokinni á www.fisflug.is.