Skyranger fisflugvélarnar eru íslendingum að góðu kunnar enda er þetta algengasta vélfis hér á landi. Flestar skráðar fisvélar af einni tegund og nánast allar samsettar hér á landi af félagsmönnum Fisfélagsins. 10 vélar nánar tiltekið og aðeins ein af þeim sem er innflutt fullsmíðuð. Hér fer smá söguágrip Skyranger vélanna hérlendis og nokkrar töl- og sagnfræðilegar upplýsingar um þær.
Á síðasta áratug síðustu aldar (hljómar eins og í “gamla daga” en er það ekki) teiknaði Philippe Prevot upp fyrstu Skyranger flugvélina í Toulouse, höfuðborg flugvélaiðnaðar Frakklands. Segja má að hugsjón Prevot hafi verið meira skyld IKEA hugsjóninni en flugvélahönnun en þar réði ferðinni krafa um einfalda og létta byggingu, hver sem er gæti nánast sett saman vélina, enga málmsuðukunnáttu þyrfti við og að ekki þyrfti að beygja neinar pípur eða plötur, enda allt efni í vélina beinar málmpípur, álplötur og plast. Smíði Skyranger tekur 160-200 tíma miðað við hefðbundinn útbúnað. Má segja að hér hafi fæðst fyrsta “mekkanóflugvélin”.
Skyranger flugvélarnar voru lengi vel framleiddar af fyrirtækinu Synargie en framleiðsluleyfið færðist síðar yfir til úkraníska fyrirtækisinsin Aero Ltd. en það fyrirtæki er frægt fyrir hönnun og framleiðslu á allskyns fisum, allt frá paragliderum upp í fullkomin vélfis á borð við Skyranger. Í dag er Skyranger framleiddur af bæði Best-off og Aeros Ltd. en öll hönnun fer fram hjá Aeros þar sem fremstir skipa röðina fyrrum flugvélaverkfræðingar og aðrir sérfræðingar frá Antonov, rússneska flugvélaframleiðandanum. Eins og flestir vita eru Rússar vel þekktir fyrir sína flugvélahönnun og framleiðslu og framsækna hönnunar- og þróunarvinnu á því sviði.
Það efast fáir um hönnun Skyranger flugvélanna sem kynnt hafa sér málið. Skyranger hefur sigrað fleiri heimsmeistara- og evrópumeistaratitla en nokkur önnur fisflugvél á framleiðslutíma og í þessum rituðu orðum eru um 1.200 Skyranger flugvélar þegar seldar um heim allan. Ætli það segi ekki meira um höfðatölu Íslendinga og met okkar í hinu og þessu að hér á landi er að finna tæpt prósent af þessum fjölda tilbúinna Skyranger véla.
Skyranger hentar sérlega vel til flugkennslu enda með einstaklega góða eiginleika á nær öllum sviðum, ofrishraða, farflugshraða, meðhöndlun og ekki síst hve ódýrt og einfalt er að lagfæra vélina ef hún verður fyrir hnjaski eða skemmdum. Rúmgóður stjórnklefi og gott útsýni gerir vélina mjög vinsæla hjá flestum tegundum flugmanna og ljósmyndurum þykir meira til vélarinnar koma við ljósmyndun en að ljósmynda hana. Enda þykir hún ekki rennilegust þeirra allra, en það væri ugglaust erfitt að ná fram mjúkum línum og framreiða rennilega skutlu með álstöngum og segldúk einu að vopni.
Íslenskar Skyranger vélar
Þann 14. apríl 2003 fékk Ágúst Guðmundsson sendann pakka frá Skyranger sem líktist meira eldhúsinnréttingu frá sænsku húsgagnafyrirtæki en flugvél. Þetta átti eftir að verða fyrsta Skyranger flugvél smíðuð á Íslandi. Í öðrum kassa var svo Rotax 582 mótor og Gústi hóf smíðar. 17. ágúst sama ár var fyrsta flugið flogið. Smíðin hafði þvi tekið um 4 mánuði. Hann ákvað að festa smíðina á filmu og hér fyrir neðan má fylgjast með smíðinni á ögn minni tíma en hún tók í raun og veru:
{youtube}vJJGVHVB4Gk{/youtube}
TF-104 er nú staðsett á Akureyri, í eigu Sveins Ásgeirssonar, og hvílir leggi og hjól á gólfi Flugsögusafns Íslands á Akureyri. Enda er vélin vönduð í alla staði.
Félagarnir Árni Gunnarsson og Styrmir Bjarnason tóku sig til ári síðar (2004), lögðu undir sig bílskúr þess síðarnefnda og hófu samsetningu á TF-105 V-FUN. Sá Skyranger var fyrstu þeirra búinn Rotax 912 mótor, 80 hestafla. Árni Gunnarsson á vélina enn í dag ásamt Jónasi S. Sverrissyni. Styrmir á nú annan Skyranger, TF-150. Líklegast er þessi Skyranger frægastur allra hér á landi og þótt víðar væri leitað. Ástæða þess er frægt myndband sem Styrmir tók þegar Hálfdán Ingólfsson tók út og test-flaug vélinni að Grund og sýndi svo ekki verður um villst, fram á ótrúlega flugeiginleika vélarinnar:
{youtube}iRBm5pnjlK8{/youtube}
Árið 2005 tók Einar nokkur Ólafsson sig til og smíðaði með hjálp nokkurra TF-140 V-MAX. Hún er hvít að lit og er fyrsti Skyrangerinn með Rotax 912S vél, 100 hestafla. Sú vél er nú í eigu Sigurjóns Sindrasonar, Sigurðar Guðmundssonar og Gylfa Árnasonar.
Árið 2006 tóku nokkrir félagar sig til og pöntuðu hvorki meira né minna en 5 vélar til landsins. Má segja að fyrsta eiginlega flugvélaverksmiðja landsins hafi tekið til starfa í Blómavalshúsinu gamla við Sigtún, kannski örlítið í takt við góðærið títtnefnda í landinu þá dagana. Þegar vélarnar höfðu verið pantaðar sagði framleiðandinn að Ísland hefði náð USA í pöntunum þennan mánuðinn. USA hefur reyndar náð enn meiri árangri en aðeins 5 vélar í mánuði. Þar voru svo vélarnar settar saman, hver hópur fyrir sig undir nákvæmu eftirliti umboðsaðilans sjálfs, Ágústs formanns (sem smíðaði nú annan Skyranger sinn). Tímahrak gerði það að verkum að þessi nýstofnaða flugvélaverksmiðja náði ekki að skila út öllum eintökum fyrir lokun hennar en þær litu þó dagsins ljós næstu mánuði og misseri undir einkennisstöfunum TF-150, TF-151 (fór í loftið 23.7.2006 kl. 22:47), TF-160, TF-ORM og TF-169 (allar V-FUN).
TF-ORM hefur verið afskráð og bíður nú skráningar sem fis og hefur tryggt sér einkennisstafina TF-145. Núverandi eigendur eru Jón Rósmann og Hafsteinn (Lási) Haraldsson. Vélin er staðsett að Grund. TF-150 (Styrmir Bjarnason, Gylfi Árnason og Sigurjón Sindrason), TF-151 (Brynjar Gunnlaugsson) og TF-160 (Ágúst Guðmundsson) eru allar staðsettar á Grund.
Sumir voru ekki eins spenntir fyrir að smíða vél frá grunni og kusu að einfalda ferlið. Björn (bóndi) Björnsson gerði það þegar hann keypti Skyranger vél frá Kanada þetta ár. Sú vél er búin skíðum til snjólendinga og var gjarnan notuð á þann hátt í upprunalandinu. Vélin er byggð árið 2002 og er eina Skyranger fisið með Jabiru (2200) mótor. Skömmu eftir að hún kom til landsins hlekktist henni á og skemmdist þónokkuð en ekki leið á löngu þar til hún flaug á ný. Hún er staðsett á Grund.
Skömmu eftir lífdaga Blómavalssmiðjunnar, eða í ársbyrjun 2007, tók Þórir Tryggvason á Selfossi sig til og pantaði Skyranger V-MAX, setti svo saman í bílskúrnum og flaug 3 mánuðum síðar (TF-170). Sjá myndir frá smíðinni á myndasíðu Þóris hér. Hér er að finna eina vönduðustu Skyrangersmíð landsins en Þórir er vanari flugmódelsmíðum en flugvélum í fullri stærð, en svo virðist sem að áhugamálin tvö eigi ágætis samleið. TF-170 er gerð út frá Selfossflugvelli.
Þorsteinn (bóndi) í Vatnsnesi tók ögn lengri tíma í að klára sína vél, TF-169 V-FUN og var henni jómfrúrflogið 11. ágúst, 2008. Vél hans hefur tekið mörgum smávægilegum og stórvægilegum breytingum, sérstaklega til að bera eins hávaxinn mann og eigandann, auk þess sem hún er, ólíkt öðrum Skyrangerum hér á landi, búin EFIS skjá og því afar einfölduðu en fullkomnu mælaborði. Fyrirætlanir eru um að setja stærri dekk á vélina en venja er enda er Steini ekki þekktur fyrir hefðbundnar vallarlendingar nema að eitthvað sérstakt beri við. TF-169 er með skýlisaðstöðu að Vatnsnesi.
Langar þig í Skyranger?
Undirritaður man þá daga þegar smáauglýsingarnar í blaði hinna þenkjandi manna, Popular Mechanics, buðu mönnum upp á hin ótrúlegustu tekjutækifæri en ekki síst ævintýri í umslagi. Þar hafði ég séð auglýsingu um teikningar að þyrlu. Þyrlu sem var búin til úr nokkrum pípum og málmplötum og sláttuvélamótor. Og allt þetta fyrir 39.95$. Auðvitað kom ekki fram í auglýsingunni að þessi sláttuvélamótor varð víst að vera öllu öflugri en 4 hestafla sláttuvél föður míns, að álið þurfti að vera af sérstakri tegund, að mælar og lagnir þyrfti helst að nappa úr alvöru þyrlu og að ofan á allt þyrfti þúsundþjalasmiðurinn að hafa suðutæki og þekkingu til að koma þessu öllu saman. Hvort sem það var fyrir forsjárhyggju foreldra minna eða guð og lukkuna að ég lét ekki slag standa, verður að koma í ljós síðar, en flugbakterían var til staðar og lítið var við því að gera.
Skyranger “kitt” er nefnilega hannað frá upphafi fyrir 10 þumalfingur eins og mig. Ekkert þarf að beygja né sveigja, engin þörf er fyrir þekkingu á málmsuðu og eina sem þarf eru hefðbundin verkfæri úr bílskúrnum og nægan tíma. Allt kittið kemst fyrir í nokkrum flatpökkuðum pappakössum, 200 kg í það heila, og hægt er að panta það eins og maður pantaði jólagjafirnar í Freemans eða Kays í gamla daga. Maður merkir einfaldlega við hvaða pakka skal setja saman, velur litinn á vélina, mótortegund o.fl. og nokkrum vikum síðar getur smíðin verið hafin. Allt sem kemur í pakkanum er tilsniðið og því líkist samsetningin meira mekkanó en hefðbundinni flugvélasmíð (fyrir þá sem hið fyrrnefnda þekkja).
Ágúst Guðmundsson hefur manna mesta þekkingu í þessum málum og er að auki umboðsaðili á Íslandi. Hann getur gefið allar upplýsingar um kaup og smíði á Skyranger flugvélum.
Tegundir Skyranger véla
Í dag er hægt að kaupa 4 útfærslur Skyranger flugvéla. Þeirra algengust (og hér á landi) er V-FUN vélin. Þá er einnig til vængstyttri og hraðfleygari útgáfa, SWIFT, en TF-150 er ein þeirrar tegundar. Sú týpa er með meters styttra vænghaf en V-FUN og V-MAX (sjá töflu að neðan). V-MAX vélin kemur með ugga undir stéli og öðruvísi cowling-u en V-FUN. Margar útfærslur er svo að finna af hverju módeli en þá má nefna sjóskíðavél (amphibian), snjóskíðavél, stélhjólsvél (taildragger), leggjanlegum vængjum (wingfold), o.fl.
Samanburður á V-MAX og SWIFT:
Tegund
|
V-FUN V-MAX |
SWIFT |
Mesta flugtaksþyngd
|
450kg | 450kg |
Flatarmál vængs | 14.1m² | 12.8m² |
Vænglengd | 9.5m | 8.5m |
Max Chord | 1.7m | 1.7m |
Lengd | 5.5m | 5.5m |
Breidd (búks) | 1.09m | 1.09m |
Stélbreidd | 2.42m | 2.42m |
Hæð vélar | 2.4m | 2.4m |
Hæð stjórnrýmis | 1.75m | 1.75m |
Hjólhaf | 1.6m | 1.6m |
Nýjasta afsprengi Skyranger línunnar er Nynja vélin, en hún er keimlík eldri kynslóð vélanna en í stað dúkklæðningar er nú búið að klæða búk hennar með gler- og koltrefjaefnum. Lítið er þó brugðið út af klassískri og þaulreyndri álgrindarhönnun vélarinnar þótt játa verði að búkurinn verði ögn lögulegri við andlitslyftinguna. Auk þess eru “afturgluggar” þannig að hægt er að sjá aftur fyrir vélina með gluggum í stjórnklefanum. Þannig sameinast einföld byggingaraðferð með álrörum en klæðning og þægindi fiberglass á skrokk. Einnig hefur verið bætt við “winglets” og hurðaop stækkuð til að auðvelda aðgengi. Stjórnrými vélarinnar hefur þó líklega tekið mestum breytingum en mælaborðið er nú líkara þyrlustjórntækjum en í flugvél.
FAI alþjóða flugmálafélagið stendur fyrir World Air Games sem er einskonar Ólympíuleikar flugsins sjá http://www.wag2009.com/. Á þessum leikum sem hefjast 6. júní og lýkur 14. júní verður enn eitt Skyranger ævintýrið. Þar mun Ágúst Guðmundsson stýra alþjóðlegum hópi áhugamanna um flugvélasmíði. Á fyrsta degi WAG koma kassarnir með öllu dótinu. Smíðað verður á fullu alla daga, fram á kvöld ef þarf. Í lokaatriði WAG mun Skyrangerinn síðan fljúga. Þetta er 3 sinn sem smíðuð er Skyranger flugvél á sýningu og flýgur á lokadegi sýningar.
Allar nánari upplýsingar um vélarnar og týpur er að finna á www.bestoffaircraft.com. Hægt er að skoða byggingarhandbók Skyranger er aðgengileg á netinu á: http://www.flylight.co.uk/skyranger/technical.htm
Undirritaður velkist þó ekki í vafa um gæði og áreiðanleika Skyranger vélanna. Ég lærði á slíkar vélar og get borið því vitni, hve þægilegar og hrekklausar þær eru til flugkennslu og almenns flugs yfir höfuð. Það að þegar skuli vera 10 fisvélar að þessari gerð á Íslandi, algengasta vélfis hér á landi m.ö.o., segir einnig nokkuð. Það er því nokkuð ljóst að Skyranger er kominn til að vera – hvort sem er fyrir þá handlögnu eða þumalputtana 10.
Frosti Heimisson
P.s. Grein þessi er rituð af áhugamanni og ber að lesa með fyrirvara um villur. Ábendingar berist webmaster[hjá]fisflug.is.
Viðbótarmyndir frá Ágústi af Synergy vélum, teknar árið 1997. Takið eftir hvernig skýlið er nýtt með framúrstefnulegum aðferðum (neðri partur af innkaupakerru):