Það má segja að það hafi verið líf og fjör á Grund og víðar hjá Fisfélagsfólki í dag en túnið við félagsheimilið var þakið vængjum á námskeiði nýliða. Næga hafgolu var að fá frá ströndinni en það veitti fleiri vængjum byr og nokkrar fisflugvélar nýttu sér tækifærið. Þá var einnig líf við Hafrafellið en a.m.k. 5 svifvængir nýttu sér góðar aðstæður og áttu ekki í vanda með að halda flugi svo tímunum skipti. Góður dagur í alla staði og gaman að sjá alla nýliðana sem fljótlega fara að þenja vængi sína og sleppa fótum af grund, eitthvað sem eflaust beðið er eftir.