Fréttir af WAG (dagur 4)

motor_kominn_ur_kassanum-1

motor_kominn_ur_kassanum-1Byggingarhópur Skyranger vélarinnar í Torínó mætti að venju um kl. 10 á aðaltorgið til að halda áfram smíðum.  Um kl. 11 kom bílstjóri, nokkuð hróðugur með kassa frá Spáni sem innihélt Rotax 582 mótorinn.  Landfræðileg staðsetning Toríno gerði það að verkum að sendingin var ekki lengi á leiðinni en mikil eftirvænting var eftir mótornum, enda lykilatriði í áframhaldandi smíði vélarinnar.  Segja má að hópurinn hafi verið nánast verkefnalaus þegar sendingin góða barst loksins.

Nokkur hópur flugvélasmiða víða að úr heiminum hefur heimsótt byggingarbás hópsins ásamt nokkrum fjölda almennings sem hefur fylgst með hvernig slík flugvélasmíði gengur fyrir sig. 

Í dag var vélarhlíf (cowling) og bensíntankar sett á, mótor settur á festingar og ýmislegt smærra frágengið.  Þegar mótor kassinn var opnaður minnkaði ánægja hópsins nokkuð, þar sem mikið vantaði af nauðsynlegum búnaði á mótorinn.  Þar mætti helst nefna loftsíur, spennustilli, bensíndælu, vatnskassa o.fl.  Mótorinn sem um ræðir er endurbyggður Rotax 582 en hinsvegar er gírkassinn nýr. Það er því búið að vera nokkuð stress að finna lausnir á þessu og öðrum vandamálum, en engar fundnar enn.

Spennan heldur því áfram í Tórínóborg og af þeim sökum verður bara meira gaman að fylgjast með næstu fréttum sem berast frá Gústa og félögum allt þar til gripurinn fær að sleppa hjólum af grund, en það ætti að geta gerst eftir tvo daga.

litur_vel_ut_eftir_dag4-1 flug_profad_eftir_daginn-1