Fréttir af WAG (dagur 5 og 6)

Eldveggur_i_smidum

Eldveggur_i_smidumFréttir hafa borist með reglulegu millibili frá Gústa á Veraldarleikum flugsins í Torínó.  Nú fer að nálgast prófanir á vélinni og því mikilvægt að allt gangi samkvæmt áætlun.  Svo virðist þó ekki ætla að vera raunin og lífið í Torínó hætt að vera dans á rósum (leyfir greinarhöfundur sér að velta því fyrir sér hvort dans á rósum hljómi eins illa og hann í raun og veru hljóti að vera).  Ágúst sendi fyrr í dag stöðuskýrslu og fylgir hún hér á eftir ásamt tveimur myndum.

Í morgun áttu mótorhlutar og fleira að vera komið til okkar, eins og bensíndæla ofl.  Ekki gekk það eftir og í ljós kom að einhver togstreita og pólitík var deiluefni milli fyrirtækisins og stjórnar Heimsleikanna.  Á endanum gáfu menn eftir og við fengum afhenta hlutina um þrjúleitið.

eldveggur_og_golf_komin_iVið gengum að mestu frá eldveggnum, sem er nokkuð vesen.  Eins voru hurðir klæddar og kláraðar auk þess sem sett var álplata á gólfið.  Byrjað var á mælaborði og búið að gera öll göt fyrir mæla og rofa eins og þarf.

Flugvöllurinn fyrir fyrsta flug var fluttur frá því að vera 50km í burtu til að vera í 5km fjarlægð.  Málið var að Ítalirnir vissu ekki af vellinum, en Tékki sem ég kynntist síðasta vetur í Sviss hafði lent þarna á heimasmíðuðu Europa vél sinni og geymdi meðan á leikunum stóð. Hann kom auðvitað fljúgandi frá Prag og varð að fara heim í dag.  Við hringdum í flugvallareigandann sem gaf góðfúslegt leyfi fyrir notkun vallarins. Það kemur því í ljós í flugprófunum á laugardag hvort flogið verði inn á Torino flugvöll þar sem aðalstöðvarnar og lokahátíðin verður, eða hvort vélin verði flutt þangað með flutningabíll.

Það er afar mikilvægt að okkar mati að vélin verði á Torino flugvelli, svo það er allt leyst.

Einn af áhorfendunum sem hefur hangið yfir okkur í dag kemur frá suður Ítalíu.  Hann hefur aldrei áður komið svona nálægt smíði á flugvél áður og hefur því setið yfir okkur í allan dag.  Þessi kom eingöngu til að sjá okkur smíða Skyrangerinn.  Hannn mútaði okkur með ís á línuna, svo við leyfum honum að fylgjast með yfir öxlina á okkur.

Á morgun föstudag er síðasti dagurinn í smíðinni og við munum klára allt.  Það er mjög skemmtilegt að sjá að allt er unnuð mjög vel, hvergi kastað til höndunum í smíðinni og allt mjög vel gert.

Kveðja frá Tórínó,

Ágúst Guðmundsson