Þegar haustaði birti til aftur og höfðu þær landað fyrstu svifvængjavinnunni sinni. Leið Anitu skildi liggja til Grikklands að aðstoða franskann séntilmann hjá Flying Paradise og Ása yrði ekki langt frá, í Frakklandi og Marokkó, í svipuðum verkefnum fyrir Passion Paragliding. Vinnan þeirra beggja var bæði lærdómsrík og krefjandi en hafði þann leiða akkelesarhæl að lítið bættist við flugtímana hjá þeim báðum. Anita bætti það þó upp með því að heimækja gríska guðinn okkar, Andreas, sem margir muna eftir frá sumrinu 2009 og fljúga yfir Delphi rústirnar frægu í Itea.
Reynslunni ríkari og jafnvel nokkrum peningaseðlum til leið að jólum og voru uppi háleit plön um að hittast í jólamánuðinum og fljúga saman þvert og endilangt yfir Marokkó. Ása hélt til á ströndinni á meðan Anita var að ganga frá vinnusamningi um aðra svifvængjavinnu í Marokkó. Þau plön féllu þó til jarðar eins og Babýlonsturninn og eyddi Ása jólunum á lúxushóteli í Agadir, Marokkó, með fjölskylduna í beinni á skype en Anita í faðmi franskra vina á Dune du Pyla, Frakklandi þar sem hún þó náði yndislegu vetrarflugi á sandöldunni.
Fyrstu tvo mánuði ársins hafði Ása fengið áhugavert gylliboð, að gera upp gamla snekkju á Englandi, frítt fæði og húsnæði á hestabúgarði í Kent allan tíman og ekki skemmdi fyrir að þessi vinna var borguð í beinhörðum peningaseðlum og pundum þar að auki. Með dollaramerki í augunum lenti hún á á enskri grund í þokusúld og kulda sem varð viðvarandi lýsing á næstu 2 mánuðum sem gengu í hönd. Anita var á sama tíma að færa sig um set frá sandöldunni og aftur á Hótel Mömmu í Nice.
Eftir þokusúldina í Englandi stökk Ása á fyrsta svifvængjafrí sem hún sá sér fært um að eyða í og var bókuð í fyrstu vél til Alicante á Spáni þar sem hún hitti Nick hjá doyouwanna.net, sem ætti ekki að vera íslenskum flugmönnum ókunnugur. Einn þeirra skildi meira að segja eftir gítar þar sem er nú með slitna strengi og bíður endurkomu eiganda síns. Á Spáni var hún í 12 daga á meðan hún reyndi að muna litina á vængnum sínum og í hvaða spotta ætti að toga og hvenær. Þaðan fékk hún svo flug fyrir 6GBP til Pisa á Ítalíu og hefur nú þrætt sig með lestum, strætóum og bátum alla leið niður stígvélið og gott betur og er í dag stödd við rætur eldfjallsins Etnu, á Sikiley og er á leið yfir til Möltu þar sem hún hefur mælt sér mót, bæði við íslenska og erlenda, svifvængjaflugmenn og mun loks ná að breiða vel úr vængnum á þessum vetri.
Anita hefur verið ferðastopp í Nice þar sem gat kom á pyngjuna og hún er orðin tóm aftur. Þar stundar hún jóga og rauðvínsdrykkju af miklum móð og flýgur annað slagið í Roquebrune / Mónakó eða Colmiane og Saint André les Alpes þegar lókal flugmennirnir bjóða henni far uppeftir.
Bjartsýnin er enn yfirgnæfandi og hafa þær stöllur aldeilis ekki gefið upp alla von á að hittast á ný. X-Iceland er á dagskránni í sumar, sirka í júlí og er planið að fara í vol bivouac ferð þvers og kruss yfir hálendi Íslands og þar sem þær hafa báðar saknað hins einstaka flugfélagskapar sem við eigum á Íslandi eru allir flugmenn hvattir til að rýma harnessið fyrir tjald og svefnpoka og svífa saman yfir landið.
Myndir og fleira frá ævintýrum þeirra má finna á http://theflyingeffect.com/