Nýtt deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið á Selfossi

svskipulagselfossi

svskipulagselfossiSveitarfélagið Árborg hefur nú auglýst gildistöku á nýju deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið. Svæðið fyrir flugskýli og flugstöð er samtals tæpir 5 hektarar og gert ráð fyrir 6 nýjum byggingarreitum á svæðinu sem hver um sig getur rúmað allt að 6 skýli, eftir því hvað menn vilja byggja stórt. Samkvæmt skipulaginu verður flugstöðin á sínum stað en akbrautir og flugplan færist til. Þetta eru að sjálfsögðu ákaflega góðar fréttir og nú er ekkert því til fyrirstöðu að þeir sem vilja byggja geti fljótlega hafist handa. Gert er ráð fyrir að lóðir verði auglýstar til umsóknar á næstu vikum.

Fjöldi fiseigenda hafa verið í vanda með pláss fyrir flugvélar sínar og er nú svo komið að margir hafa einnig hikað við að fjárfesta í fisflugvélum vegna skýlisleysis.  Á meðan skipulag Reynisvatnsheiðar er ekki enn samþykkt má vænta þess að einhverjir þessara einstaklinga eða hópa renni hýru auga til svæðisins á Selfossi en Flugklúbbur Selfoss hefur sýnt fisflugi mikinn áhuga og hýst þónokkur fis um langa hríð.  Flugvöllurinn er einnig mjög hentugur til fisflugs bæði vegna staðsetningar og langra og sléttra brauta.

Skv. teikningu er gert ráð fyrir flugskýlum fyrir yfir 20 vélar umfram það sem þegar hefur verið byggt og því má ætla að flugklúbburinn muni styrkjast næstu misserin ef marka má framtíðarplön Flóamanna á flugsviðinu.

Við óskum Flugklúbbi Selfoss til hamingju með nýja skipulagið og ekki síst fyrir þær sakir að með þessu er flugvellinum á Selfossi tryggður tilveruréttur til komandi framtíðar, fluginu öllu til hagsbóta.