Hafragrauturinn 2009 – Úrslit

Úrslit úr Hafragrautnum 2009 liggja fyrir og verða tilkynnt við hátíðlega athöfn á næsta Svifvængjafundi uppá Grund, fimmtudaginn 2. júlí kl. 20. Verðlaun verða afhent fyrir 1., 2. og 3. sæti, besta búninginn og veitt verða leyniverðlaun.

Mótið tókst með eindæmum vel, gott veður, góð mæting og æsispennandi keppni. Margar furðuverur lentu furðu langt frá lendingarpunktinum, en einhverjum tókst nú samt að hitta í mark. Vinir og vandamenn fylgdust spenntir með, nokkrir nýir flugkappar útskrifuðust af byrjenda námskeiði og RÚV kom og tók viðtal við Spin Laden sem þótti sigurviss… InShalla…

Þorri pulsa og Siggi kjúlli stóðu undir nafni að grilla ofan í glorsoltna keppendur og aðdáendur þeirra á milli marka og sló kjúklingurinn frá Matfugli og salatið frá Salathúsinu sem Siggi reddaði rækilega í gegn. Börn (en þó aðallega fullorðnir) voru líka kampakát með fagurgulu Egils flugdrekana sem þau fengu.

Eftir lendingarkeppnina hlupu flestir flugmenn aftur upp í fjall (án búninga) og héldu áfram að flögra um svæðið í rífandi termík. Flogið var til hægri og vinstri og allt um kring, einhverjir fóru inní Mosó og aðrir aftur fyrir fjall. En allir komu þó til baka með lækkandi sól, fljúgandi eða húkkandi og nutu veðurblíðunnar í útilegustemningu fram eftir kvöldi. Unga kynslóðin (nánar til tekið litli frændi Hansa) er komin með bjórmenninguna aftur inn í klúbbinn.

Róbert tók sitt fyrsta tandem-flug og lenti fagmannlega við hliðina á grillinu í miðju partýi við mikinn fögnuð adrenalín-æstra nemenda og pólsku mafíunnar og lauk þar með þessum fjölbreytta flugdegi.

Mótsnefnd þakkar kærlega fyrir góða mætingu og alla hjálpina… þið gerðuð þennan dag æðislegan!

Sjáumst í Mekka á fimmtudaginn… tadadammmmmmm….

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4467278/2009/06/27/17/