Undirritaður eyddi helginni ásamt fjölskyldu og ekki síst fisfélaga Þóri Tryggvasyni og hans fólki á ansi skemmtilegum stað í Fljótshlíð, en þetta svæði er að Hellishólum og gefur tilefni til stuttrar ferðasögu. Flugmönnum er Fljótshlíðin að góðu kunnug, ekki síst fyrir hinn ágæta og margrómaða flugvöll í Múlakoti en þar er haldin flughátíð hverja verslunarmannahelgi þar sem flugáhugafólk kemur saman og skemmtir sér.
Ferðinni varð heitið í Fljótshlíðina að fenginni umsögn um þetta ágæta svæði. Hellishólar eru nýleg ferðaparadís þar sem hægt er að tjalda, leigja bústaði af öllum stærðum, spila golf, veiða og/eða eyða ánægjustundum með fjölskyldu og vinum í notalegu umhverfi. Þar er að finna glæsilega ferðamiðstöð og aðstöðu sem á alla kanta er til fyrirmyndar. Ástæða greinarskrifanna er vingjarnlegt viðmót vertsins á staðnum, en Víðir stjörnuvert og staðarhaldari tók beiðni undirritaðs um lendingarheimild sérlega vel og sagði alla velkomna, hvort sem úr lofti eða af láði.
Þannig var að Þórir félagi hafði komið stuttu á undan og kannað svæðið og mín frú fylgdi með fellihýsið, en við hjónin höfðum ferðast megnið af leiðinni í samfylgd þótt 500 fet eða svo skildu að. Þórir fékk því aðflugsheimild frá “flugvallarstjóranum” og sendi símleiðis í TF-134. Aðflug var því hafið í ágætis veðri með passlegan mótvind í fangið á fyrstu braut og lending gekk með ágætum. Svo fengum við leyfi til að binda niður og áttum svo ágætis kvöldstund með góðum mat og með því.
Á sunnudagsmorgunn var ákveðið að kanna nánasta umhverfi og því tekið “teighögg” af fyrstu braut og stefnt á námuframkvæmdir ofan við Seljalandsfoss. Þaðan flugum við svo inn í Þórsmörk með stuttu stoppi og aftur niður Fljótshlíðina. Eins og sönnum flugáhugafólki sæmir var auðvitað stoppað við í Múlakoti og spjallað við nokkra viðstadda. Einstaklega skemmtilegt flug í ágætu veðri þótt skýjað væri að mestu. Nokkrar flugferðir fylgdu í kjölfarið, þá helst inn í Múlakot.
Á mánudagsmorgninum mátti sjá tvö kunnugleg fis bregða fyrir í lágflugi fyrir ofan svæðið en þar voru Gylfi á TF-137 og Styrmir á TF-150 á ferð en þeir vissu lauslega um staðsetningu okkar. Þeir áttu svo ágætis ferðalag inn í Þórsmörk og reyndar austar, allt að Skógum, og áttu mjög skemmtilegan túr.
Undirritaður flaug svo með Viktoríu dóttur sína að Hellu frá þessum líka ágæta stað með stuttu “pizzustoppi”, og skiljist það orð eins og það er skrifað, en svo var haldið heim á leið með viðkomu í Grímsnesinu. Verður að gefa Lása “kredit” fyrir silkimjúka lendingu að Grund í lok ferðar, en brautin “heima” er til stakrar prýði. Loksins hægt að nota alla brautina án þess að brjóta hjólahlífarnar. Takk fyrir þetta framtak Lási!!
Jæja, góð helgi að baki, kalla eftir fleiri ferðasögum frá ykkur félögum! Vert er að benda á að Víðir, vertinn á Hellishólum, er allur okkar maður og býður okkur velkomna. Gott er að hringja á undan og láta vita og auðvitað finnum við auða braut til lendingar sem ekki er verið að spila á til að trufla ekki. Þetta er kærkominn viðkomustaður en í þjónustumiðstöðinni, sem er 100 metra frá braut, er hægt að fá allt frá kaffi og upp í margréttaðar kvöldmáltíðir, svo nú er bara að bjóða spúsunni í flugtúr í Fljótshlíð og heilla’na upp úr skónum!
Nánari upplýsingar um Hellishóla á www.hellisholar.is
{youtube}z4CvTohyhHQ{/youtube}
{youtube}n6kJfHvKb6o{/youtube}